SAMKVÆMT upplýsingum Fiskistofu er enginn aðili eða fyrirtæki í sjávarútvegi kominn að þeirri hámarks aflahlutdeild, sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að hámarkið sé 10% í þorski og ýsu og 20% í öðrum tegundum. Almenningshlutafélögum með mjög dreifða eignaraðild er þó heimil litlu meiri hlutdeild.
Enginn aðili enn

kominn í hámark

SAMKVÆMT upplýsingum Fiskistofu er enginn aðili eða fyrirtæki í sjávarútvegi kominn að þeirri hámarks aflahlutdeild, sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að hámarkið sé 10% í þorski og ýsu og 20% í öðrum tegundum. Almenningshlutafélögum með mjög dreifða eignaraðild er þó heimil litlu meiri hlutdeild. Hér að ofan er yfirlit yfir eignaraðild og aflaheimildir flestra helztu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og á síðunni hægra megin eru birt gildandi lög um hámark aflahlutdeildar.

Morgunblaðið ræddi þessi mál við þá Árna Mathiesen, sjávarútvegsráðherra og Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs.

Þessi leið er ekki fær

"Ellefta grein laganna um stjórnun fiskveiða fjallar bæði um beina eignaraðild að fyrirtækjum í sjávarútvegi og eignaraðild tengdra og skyldra aðila. Það eru því takmörk fyrir því hve mikið fjárfestingarfélög til dæmis geta átt," segir Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra. "Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu er enginn aðili kominn í hámark, hvernig sem á málið er litið. Það er því ekkert um neina þá aðra leið að ræða, sem talað var um á Alþingi í þessari viku, að menn séu að nota sér til að komast yfir meiri aflahlutdeild en lögin heimila. Einhverja leið, sem menn hefðu ekki séð fyrir, þegar þessi lög voru sett. Í lögunum eru settar skorður við því, sem sumir hafa verið að þykjast uppgötva, sem einhverja aðra leið. Þessi leið er einfaldlega ekki fær. Lögin taka sérstaklega til hennar.

Ég hef ekki enn séð að einhver vandkvæði hafi komið upp í atvinnugreininni vegna þess að þessi lagagrein dugi ekki til að halda annars vegar eignaraðildinni nægilega dreifðri og hins vegar koma í veg fyrir of mikla samþjöppun. En það að ríkisstjórnarflokkarnir skyldu taka á þessu máli á síðasta kjörtímabili, sýnir að vilji þeirra er að samþjöppunin verði ekki of mikil. Það er í fullu samræmi við stefnu þessara flokka og ríkisstjórnarinnar í öðrum málum eins og FBA og samþjöppun á smásölumarkaðnum.

Mun fleiri koma að nýtingu auðlindarinnar en áður

Svo verða menn einnig að líta til þeirra breytinga sem hafa orðið með tilkomu almenningshlutafélaga í sjávarútveginum. Þessi stóru fyrirtæki eru öll almenningshlutafélög. Það eru miklu, miklu fleiri sem eiga aðild að nýtingu auðlindarinnar í gegnum það, en fyrir 30 árum, þegar þetta voru í flestum tilfellum lítil fjölskyldu fyrirtæki. Þegar Alþingi samþykkti þessa breytingu á gildandi lögum um stjórn fiskveiða, það er setti inn 11. greinina, breytti það frumvarpi ríkisstjórnarinnar í þá veru að rýmka um fyrir almenningshlutafélögum, sem mega eiga meiri aflahlutdeild en önnur fyrirtæki.

Það hefur raunverulega ekki reynt á þessa grein enn og því er of snemmt að gera því skóna að hún virki ekki," segir Árni Mathiesen.

Verðum að varðveita fjölbreytnina Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs, segir eðlilegt að málið sé skoðað í samanburði við ákvæði laganna og tilganginn með setningu þeirra, sem hefði fyrst og fremst verið að hindra að veiðiheimildirnar söfnuðust saman á fáar hendur. Markmiðið hefði ekki endilega verið að setja þak á stærð fyrirtækjanna heldur að tryggja dreifingu veiðiheimildanna því fyrirtæki gætu meðal annars vaxið vegna umsvifa í fiskvinnslu og fullvinnslu.

"Ég tel reyndar að í þessari lagasetningu hafi líka falist ákveðin táknræn yfirlýsing af hálfu löggjafans, þar sem menn voru að senda þau skilaboð út í greinina að það yrði gripið til aðgerða ef menn stæðu frammi fyrir því að veiðiheimildirnar ætluðu að safnast á allt of fáar hendur," segir Steingrímur.

"Ég geri ekki lítið úr því að ástæða sé til að vera vel á verði gagnvart þessari samþjöppun sem er að eiga sér stað en ég hef líka bent á að það er fleira sem henni fylgir og er að gerast sem er ekki síður áhyggjuefni. Það er breytingin á útgerðarháttum og samsetningu flotans sem hefur tengst þessari færslu veiðiheimilda á hendur stóru fyrirtækjanna. Þau eru fyrst og fremst tiltölulega einhæfir útgerðaraðilar vinnsluskipa. Ég held að menn þurfi ekki síður að horfa á það sem hefur verið að gerast í þessu og hvernig hefur gengið á bátaflotann og útgerð ísfiskiskipa. Minna berst af hráefni beint til vinnslu í landi og þær breytingar reynast mörgum sjávarbyggðunum, sérstaklega þeim minni, hvað skeinuhættastar um þessar mundir í samhengi við það öryggisleysi sem byggðirnar búa við í núverandi kerfi. Ef menn ætla ekki að horfa þegjandi á útgerðina enda hjá 10 stórum fyrirtækjum, sem fyrst og fremst byggja á rekstri fiskiskipa, verður að grípa til frekari ráðstafana heldur en þessari lagasetningu fylgir. Þá held ég að hólfun útvegsins ætti að vera þannig að bátaflotinn og grunnslóðarflotinn yrði sérstakt aðskilið lag í fiskveiðistjórnunarkerfinu og veiðiheimildir gætu ekki flust úr þeim hópi á stærri skip."