Blikur á lofti og útlitið dökkt
"ÉG ER að kanna stöðuna og hvernig viðbrögðin verða," segir Jón Kjartansson, bóndi á Stóra- Kroppi í Reykholtsdal í Borgarfirði, en hann hefur auglýst jörð sína til sölu. "Mér finnst ýmsar blikur á lofti og útlitið dökkt auk þess sem ekkert barnanna er tilbúið til að taka við búinu."
Jón flutti alkominn að Stóra- Kroppi í sumar eftir að niðurstaða fékkst í deilunni um lagningu Borgarfjarðarbrautar og sagði hann að síðan hefðu forsendur breyst. "Þetta er svo sem ekki endanleg ákvörðun og kannski ekki endanlegt en við erum að kanna okkar stöðu," sagði hann. "Mér finnst ýmsar blikur á lofti og útlitið dökkt í þessum geira. Það sem hefur breyst á ársgrundvelli er að ekkert framboð er af greiðslumarki í mjólk. Mjólkurbúin slást um allt sem er til sölu þannig að þeir sem eru að reyna að stækka við sig eiga enga möguleika á að kepppa við þau. Ég veit dæmi um jarðir sem hafa verið til sölu á Suðurlandi, þar sem afurðastöðvarnar hafa haft frumkvæði að því að bjóða í kvótann. Það er því ekki einu sinni þannig að ef ungt fólk hefði áhuga á að kaupa kvótann þá er það ekki hægt vegna yfirboða á greiðslumarki. Ég er svartsýnn á að það breytist á allra næstu misserum og mér sýnist að þær áætlanir, sem við höfðum um að byggja nýtt fjós og auka verulega við framleiðsluréttinn muni reynast erfiðar." Jón sagði að yrði jörðin seld þá myndi framleiðsluréttur og allt sem henni fylgdi fylgja með í kaupunum.
Deilurnar hafa áhrif
Jón sagði að deilan um Borgarfjarðarbraut hefði einnig sín áhrif. "Við höfum þurft að þola illvígar deilur í fimm ár og þó svo það mál hafi fengið farsælan endi þá tekur það sinn toll að berjast við stofnun eins og Vegagerðina árum saman um lífsviðurværi sitt," sagði hann. "Þá er það með okkur eins og marga aðra bændur að við höfum engan til að taka við af okkur." Sagði hann að ómálefnaleg umræða um stöðu þeirra í sveitinni vegna lagningar Borgarfjarðarbrautar hefði leitt til þess að börnin væru flutt úr landi.
Jón sagði það alvarlegt ef ríkisfyrirtæki kæmust upp með að eigin frumkvæði að leggja veg sem gerði búskapinn ókleifan og erfiðan. "Sú innansveitarkrónika sem á eftir fylgdi gerði það að verkum að okkar börn urðu þessu gersamlega fráhverf," sagði hann. "Ég vann lengi í Sviss og börnin okkar eiga sínar rætur þar þannig að þau ákváðu að flytja þangað alfarið. Þá spyr maður sjálfan sig að því á tímamótum í lífinu hvort rétt sé að ráðast í stórfellda uppbyggingu vitandi það að eftir 10 ár þegar yngri kynslóðin ætti að taka við þá er hún ekki fyrir hendi."
Sigraði í vegamálinu
"Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar ættu að velta því fyrir sér í framtíðinni hvernig bregðast skuli við þegar framtíðarmenn kaupa eyðijörð eins og við og byggja hana upp og gera að stærsta búi sveitarfélagsins," sagði hann. "Það er alltaf þessi árátta í landanum að berja allt niður sem stendur upp úr meðalmennskunni. Það virðist vera mjög ríkt í samfélögum eins og hér. Ég neita því ekki að ég vann stóran sigur í þessu vegamáli. Það hefur engum bónda á Íslandi tekist hingað til að stöðva yfirgang Vegagerðarinnar. Mér finnst ég gjalda þess í vissum stofnunum í Reykjavík og að ákveðnir aðilar hafi ákveðið að leggja stein í götu mína. Þá veltir maður því fyrir sér hvort þetta sé þess virði. Mér finnst ég geta metið hvernig Íslendingar standa að svona málum eftir 18 ára búsetu erlendis. Þetta er svona öfundarbrölt og annarlegar hvatir sem brjótast fram þegar einhver reynir að gera betur. Það er staðreynd að búið á Stóra- Kroppi hefur verið nythæsta búið í sveitarfélaginu. Við höfum fengið viðurkenningu fyrir afurðir og kynbætur. Allt svona virðist fara illa í vissa nágranna, sem reyna að koma höggi á mann með einhverjum hætti."
Hreint land sérstaða
Jón sagðist hafa verið þeirrar skoðunar þegar hann hóf búskap á Íslandi að landið hefði sérstöðu. Það væri hreint land, landrými væri nóg, loftið tært auk annarra skilyrða sem aðrar þjóðir öfunduðu okkur af í matvælaframleiðslu. "Ég taldi alltaf að við hefðum öll ytri skilyrði til að gera vel en mér finnst að stjórnvöld og þá sérstaklega bændaforustan hafi sýnt fádæma skammsýni," sagði hann. "Bændaforustan á Íslandi er gersamlega bitlaus í sínu starfi og ég hef ekki orðið var við neina tilraun af hálfu þeirra samtaka til þess að bæta bág kjör bænda. Þar er vissulega þörf á mikilli breytingu."