HVERFASKIPTING áfengis- og vímuefnaneyslu hefur undanfarið verið kynnt fyrir fulltrúum skóla og tómstundastarfs í Reykjavík. Niðurstöður benda til að meiri sveiflur séu í neyslu milli ára en byggðahverfa. Rannsóknin Þróun vímuefnaneyslu íslenskra unglinga var kynnt fyrr í sumar.
Munur milli hverfa í vímuefnaneyslu

HVERFASKIPTING áfengis- og vímuefnaneyslu hefur undanfarið verið kynnt fyrir fulltrúum skóla og tómstundastarfs í Reykjavík. Niðurstöður benda til að meiri sveiflur séu í neyslu milli ára en byggðahverfa.

Rannsóknin Þróun vímuefnaneyslu íslenskra unglinga var kynnt fyrr í sumar. Hún var unnin af félagsfræðingunum Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Þóroddi Bjarnasyni og er hluti af evrópskri könnun (ESPAD) sem framkvæmd er í 30 löndum og nær til 15­16 ára barna. Á Íslandi var það Áfengis- og vímuvarnarráð sem stóð að rannsókninni. Samstarfsnefnd Reykjavíkurborgar um afbrota- og fíkniefnavarnir (SAF) og ýmis sveitarfélög hafa í framhaldi látið kanna áfengis- og vímuefnaneyslu á sínu svæði.

Náin tengsl við landsmeðaltal

Rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining, sem Inga Dóra starfar hjá, hefur kynnt niðurstöðurnar fyrir skólastjórum, námsráðgjöfum, fulltrúum félagsþjónustunnar, fulltrúum ÍTR og fulltrúum foreldra í Reykjavík. Er borginni þar skipt upp í fjögur svæði, vesturbæ/miðbæ, austurbæ, Breiðholt/Árbæ og Grafarvog.

Niðurstöðurnar sýna að ekki eru miklar breytingar á áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga milli hverfa og að náin tengsl eru við landsmeðaltal. "Það er sama á hvaða vímuefni við lítum, áfengi, reykingar eða sterkari efni, neyslan virðist svipuð hvar sem er í borginni," segir Inga Dóra og kveður neyslusveiflur meiri milli ára en hverfa.

Nokkur munur er þó sjáanlegur milli hverfa. Landsmeðaltal þeirra sem neytt höfðu áfengis innan við 30 dögum áður en könnunin var gerð var 43,5%. Sé Reykjavík skoðuð út frá þeim tölum sést að flestir unglingar í Breiðholti og Árbæ, eða 49,4%, höfðu neytt áfengis á þessu tímabili. Áfengisneyslan var hins vegar minnst í austurbæ, eða 41,9%.

Þegar litið er síðan á reykingar höfðu flestir unglingar í austurbænum reykt sl. 30 daga fyrir könnunina, eða 32,5% á meðan talan mældist lægst í Grafarvogi eða 28,8%. Þá höfðu flestir unglingar í vesturbæ reykt hass einhvern tímann á ævinni, eða 21,6%, en fæstir í Breiðholtinu, 18%.

Minni neysla en undanfarin ár

Inga Dóra segir að fundir með forsvarsfólki forvarnaraðgerða bendi til að ástæðu þessa mismunar sé ekki hvað síst að finna í því mismunandi forvarnarstarfi sem fram fer í hverfunum. Hún nefnir sem dæmi að lögð sé meiri áhersla á að vinna gegn reykingum í sumum hverfum en öðrum.

Mikilvægasta niðurstaða rannsóknarinnar er þó, að mati Ingu Dóru, sú að í fyrsta skipti síðan 1990 hefur dregið úr neyslu ólöglegra vímuefna, reykingum og áfengisneyslu meðal unglinga. "Þessu ber að fagna," segir Inga Dóra og bendir á að rannsóknir hafi sýnt tengsl milli neyslu í efstu bekkjum grunnskóla og neyslu í framhaldsskólum. Ætla megi því að neysla mælist áfram minni hjá þessum árgangi unglinga.

Inga Dóra varar þó við að of mikið sé lesið úr rannsókninni og árangri forvarnarstarfs á þessu stigi. Hugsanlegt sé að forvarnarstarf undanfarinna ára sé nú að skila sér, en hægt verði að gera sér nákvæmar grein fyrir stöðu mála þegar niðurstöður ESPAD rannsóknarinnar frá öðrum löndum berast.

Forvarnarstarf bæti félagslegt umhverfi

"Af fyrri rannsóknum okkar getum við þó dregið þá ályktun að margir þættir hafi áhrif á vímuefnaneyslu ungs fólks," segir Inga Dóra og nefnir sem dæmi jafningjahópinn, frístundastarf, lífsstíl, tengsl við fjölskyldu og áhrif skólans.

Fyrri rannsóknir hafi t.d. sýnt að unglingar sem verja litlum tíma með foreldrum eða forsjáraðilum og unglingar sem fá lítið aðhald og eftirlit heima fyrir séu líklegri til að reykja og neyta vímuefna en þeir sem verja meiri tíma með fjölskyldunni og fá meira aðhald.

Einnig segir Inga Dóra vera sjáanleg tengsl milli þátttöku í skóla og tómstundastarfi. Þeir sem séu utanveltu í skóla séu þannig líklegri til að reykja og neyta vímuefna, á meðan þeir unglingar sem taka þátt í íþróttum og öðru skipulögðu æskulýðsstarfi séu ólíklegri til að neyta vímuefna en þeir sem ekki taka þátt í slíku starfi.

Inga Dóra segir því mikilvægt að efla nærsamfélagið og draga þannig úr líkum á að einstaklingar séu utanveltu. Forvarnarstarf þurfi þannig að beinast að því að bæta félagslegt umhverfi unglinga. Fræðsla um skaðsemi fíkniefna og formlegt taumhald skili ekki árangri eitt sér.

"Eigi árangur að nást verða allir þessir aðilar að ná saman," segir Inga Dóra og kveður öflugt forvarnarstarf vera í gangi í mörgum hverfum.

"Annað sem skiptir máli er að hafa í huga að forvarnarstarf er grasrótarstarf. Sérfræðingar geta vissulega miðlað upplýsingum og greitt fyrir að árangur náist. En þeir sem líklegastir eru til að ná árangri eru þeir sem umgangast unglinga frá degi til dags, foreldrar, kennarar og annað skólafólk svo og þeir sem starfa með unglingum í tómstundum þeirra."

Morgunblaðið/Golli

Inga Dóra Sigfúsdóttir segir öflugt forvarnarstarf vera nauðsynlegt.