Hvammstanga-Það var haustlegt í Húnaþingi vestra, þegar Morgunblaðið heimsótti Halldór Líndal, bónda á Vatnshól í Línakradal. Grátt var í fjallahlíðum og næturfrost algengt. Og það var ekki gleði í huga þessa unga bónda, sem ásamt mörgum samsveitungum má þola niðurskurð á sauðfjárbústofni sínum í haust.

Hyggst halda ótrauður

áfram eftir biðtímann

Hvammstanga - Það var haustlegt í Húnaþingi vestra, þegar Morgunblaðið heimsótti Halldór Líndal, bónda á Vatnshól í Línakradal. Grátt var í fjallahlíðum og næturfrost algengt. Og það var ekki gleði í huga þessa unga bónda, sem ásamt mörgum samsveitungum má þola niðurskurð á sauðfjárbústofni sínum í haust.

Halldór er fæddur árið 1968, og hefur alla tíð átt heima á Vatnshól, þar sem foreldrar hans, Jósafat Jósafatsson og Ragnhildur Stefánsdóttir, bjuggu í áratugi. Halldór er búfræðingur að mennt frá Hvanneyri 1987 og hefur verið bóndi á Vatnshól frá 1990. Hann býr einn á búi sínu, en nýtur aðstoðar foreldra sinna á álagstímum, eins og um sauðburð og smalamennsku.

Það var í vor sem Halldór varð var við sjúkleika í fjárstofni sínum, sem telur um 400 fullorðnar kindur. Fimm ær reyndust sjúkar og voru þær fluttar lifandi suður til rannsóknar að Keldum. Þar voru þær felldar og úrskurðaðar með riðueinkenni.

Ef til vill kom þetta Halldóri bónda ekki á óvart, þar sem skorið hefur verið niður á tveimur nágrannabæjum, Neðra-Vatnshorni og Vigdísarstöðum, á síðastliðnum árum. Þessir bæir eru í svonefndu Vatnsnesshólfi, sem nær umhverfis Vatnsnessfjall, um sveitirnar Vatnsnes, Línakradal og Vesturhóp. Tvö önnur sauðfjárveikivarnarhólf eru í héraðinu, Víðidalshólf, sem skorið hefur verið niður í fyrir nokkrum árum, svo og Miðfjarðarhólf, sem einnig nær yfir Hrútafjörð austanverðan, en það hólf hefur alveg sloppið við riðuveiki enn.

Allt fullorðið fé skorið á ellefu bæjum í Vatnsnesshólfi

Landbúnaðarnefnd Húnaþings vestra fundaði um málið þá fljótlega og í samráði við yfirstjórn sauðfjárveikivarna voru aðgerðir ákveðnar. Nú á haustdögum er búið að ákveða að skorið verði allt fullorðið fé á ellefu bæjum í Vatnsnesshólfi, auk allra lamba á Vatnshól. Á Vatnshól verður því skorið á annað þúsund fjár, en niðurskurður í heild á svæðinu er 15­16 hundruð fullorðnar kindur. Á einum bænum, Neðra Vatnshorni, keyptu ábúendur líflömb á síðasta hausti og er það þungur kostur fyrir þá að þurfa að sæta niðurskurði öðru sinni á örfáum árum.

Halldór segir að samningar um bætur fyrir niðurskurðinn séu flóknir og margs sé þar að gæta. Ríkisvaldið bjóði bætur fyrir hverja skorna fullorðna kind, þá séu boðnar afurðatjónabætur, en bú hans á að vera fjárlaust í þrjú ár, og þar með afurðalaust. Viðmiðun fyrir afurðabætur koma sér illa fyrir hann, þar sem tekið er meðaltal síðustu þriggja ára. Á þessum árum hefur hann verið að fjölga sínu fé og þar sem fjárstofninn er svo ungur, eru ekki komnar hámarksafurðir eftir hverja kind.

Honum er gert að skipta um jarðveg umhverfis fjárhúsin, hreinsa allt innanhúss í fjárhúsum og hlöðu, endurnýja gamalt tréverk, grindur og garða, en styrkt eru efniskaup á nýju timbri að 40 af hundraði. Allt skal sótthreinsað eftir ströngum fyrirmælum. Þessi framkvæmd öll kostar talsvert fé í aðkeyptri vinnu og efni, en enginn stuðningur er í boði utan hluta í efniskaupum og efnisflutningum í umhverfiskostnaði.

Áburðarkaup liðins vors og möguleikar á sölu heys koma ekki vel út í þessari stöðu. Hömlur á sölu á heyi frá niðurskurðarjörðum eru verulegar. Bjóða má heyið eingöngu til hrossaeigenda, séu þeir ekki með hross sín á sauðfjárjörðum. Stærsti markaðurinn er á suðvesturhorninu og mikil samkeppni um verð.

Staða heyframleiðenda á landsbyggðinni á þennan markað er erfið, þar sem flutningskostnaður getur orðið allt að þriðjungur af verði heysins, en flestir kaupendur fá heyið til sín frítt flutt á staðinn. Halldór segir óvissu um sölu á þennan aðalmarkað landsins af þessum sökum.

Halldór er í fjárræktarfélagi Kirkjuhvammshrepps og hefur náð góðum árangri í afurðaræktun síns fjárstofns. Hann hefur haft um 31 kg eftir vetrarfóðraða á, utan gemlinga. Þetta er í góðu meðallagi í fjárrætarfélaginu, en allmikið yfir landsmeðaltali.

Aðrir möguleikar skoðaðir

Í vor keypti Halldór jörðina Efra- Vatnshorn. Jörðin er í þjóðbraut, við Norðurlandsveg og hefur verið í eyði um nokkur ár. Þar ætlaði hann að ná auknum heyfeng fyrir búið, auk þess að nýta byggingar sem á jörðinni eru. Hann segir að áformin hafi auðvitað breyst með niðurskurðinum, en aðrir nýtingarmöguleikar Efra-Vatnshorns komi sér vel nú. Þar verði vettvangur til að huga að ýmsu öðru á meðan biðtíminn líður þar til hann fær að taka kindur aftur.

Byggingar, sem þar standa nærri þjóðveginum bjóði upp á einhverja starfsemi og jörðin á land að Miðfjarðarvatni. Því eru þar ýmsir möguleikar á að koma upp þjónustu. Íbúðarhús og gripahús séu hins vegar eldri og þarfnist endurbóta, ef nýta eigi þau sem skyldi.

Þrátt fyrir staðreyndina um niðurskurð bústofnsins er Halldór ekki svartsýnn. Hann hyggst halda ótrauður áfram sauðfjárframleiðslu eftir biðtímann. Hins vegar er algjör óvissa um hvað aðrir bændur á þessu svæði munu gera. Sumir eru með annan rekstur á búum sínum, eins og mjólfurframleiðslu og hrossarækt, aðrir eru með fátt fé og sumir aldnir hafa kindurnar sér nánast til heilsubótar. Í erfiðri stöðu sauðfjárframleiðslunnar í dag er líklegt að einhverjir taki ekki fé aftur. Það verður tíminn að leiða í ljós.

Morgunblaðið/Karl Sigurgeirsson Halldór Líndal, bóndi á Vatnshól í Línakradal, lítur yfir landið þar sem fjárstofn hans er og bíður niðurskurðar.