20.10. 1999 VELGENGNI Knattspyrnufélags Reykjavíkur virkar greinilega eins og vítamínsprauta á fylgismenn félagsins og hvetur þá til dáða á öllum sviðum. Nú er í undirbúningi stofnun skákdeildar KR og verður félagið þar með fyrsta almenna íþróttafélagið til að stofna skákdeild innan sinna vébanda.
KR stofnar skákdeild SKÁK KR-heimilið Stofnfundur skákdeildar 20.10. 1999 VELGENGNI Knattspyrnufélags Reykjavíkur virkar greinilega eins og vítamínsprauta á fylgismenn félagsins og hvetur þá til dáða á öllum sviðum. Nú er í undirbúningi stofnun skákdeildar KR og verður félagið þar með fyrsta almenna íþróttafélagið til að stofna skákdeild innan sinna vébanda. Skákklúbbur hefur að vísu verið starfandi á miðvikudagskvöldum í skjóli félagsins í þrjú ár, en í ljósi breyttra aðstæðna þykir félagsmönnum nú við hæfi að bæta um betur, og hefur aðalstjórn KR veitt samþykki sitt fyrir stofnun deildarinnar. Þetta þýðir væntanlega að skákdeildin verður með svipaða stöðu innan KR og aðrar deildir félagsins, svo sem knattspyrnudeild, skíðadeild, sunddeild og borðtennisdeild. Stofnfundur skákdeildarinnar verður haldinn í KR-heimilinu við Frostaskjól miðvikudaginn 20. október kl. 20. Á fundinum verða kynnt drög að lögum deildarinnar, kosin verður fyrsta stjórn hennar og svo verða lögð á ráðin um framhald starfseminnar og markmið. Á fundinum er ætlunin að leggja fram bók þar sem öllum gefst kostur á að gerast stofnfélagar og mun bókin liggja frammi til áramóta. Það er viðeigandi á aldarafmæli KR að gera íþrótt hugans hærra undir höfði með þessum hætti. Hver veit nema þessi deild eigi svo eftir að gefa KR-ingum ærlegt tilefni til fagnaðarláta þegar fram líða stundir. Allir þeir sem áhuga hafa eru velkomnir í KR-heimilið á miðvikudagskvöldum, því þá er það skákin sem þar ræður ríkjum. Með þessu nýja félagi verða sex taflfélög starfandi í Reykjavík og er spurning hvort þau hafa nokkurn tíma verið fleiri. Auk hins nýja félags eru eftirtalin félög með umtalsverða starfsemi: Taflfélag Reykjavíkur, Taflfélag Hreyfils, Taflfélagið Hellir, Taflfélag eldri borgara og Skákfélag Grand-Rokk. Það er spurning hvort þetta frumkvæði KR-inga sé vísir að því sem verða skal. Ýmsar breytingar eru að verða á skákinni og sífellt fleiri þjóðir flokka hana sem íþrótt. Þetta á ekki síst við ýmsa nágranna okkar í Evrópu. Þá gerðist það í júní á þessu ári, að alþjóðlega Ólympíunefndin veitti FIDE aðild að Ólympíuhreyfingunni og viðurkenndi skák þar með sem íþrótt. Það má því búast við því að fljótlega verði skákin kynnt sem keppnisíþrótt á Ólympíuleikunum. Á annað hundrað lönd í heiminum setja skákina í flokk með öðrum íþróttagreinum, þó það sé ekki gert hér á landi. Til þess að breyting verði þar á er nauðsynlegt að Skáksamband Íslands sæki um aðild að íþróttahreyfingunni. Kiwanismótið á Akureyri í dag Kiwanismótið í skák verður haldið í dag, laugardaginn 16. október kl. 11, í Lundarskóla. Mótið er í boði Kiwanisklúbbsins Kaldbaks og er opið öllum börnum á grunnskólaaldri. Haustmót Skákfélags Akureyrar í barna- og unglingaflokkum hefst síðan að viku liðinni, 23. október klukkan 13:30. Mótið verður haldið á Skipagötu 18, annarri hæð. Hraðskákmót á Grand-Rokk í dag Nú stendur yfir hjá Skákfélagi Grand-Rokk fjögurra móta keppni. Þriðja mótið í keppninni verður haldið í dag, laugardaginn 16. október, og hefst klukkan 14. Sigurvegari á hverju móti fær verðlaun, en að auki eru gefin stig fyrir heildarframmistöðu. Sá sem fær flest stig úr þremur mótum verður krýndur meistari mótaraðarinnar og fær að auki 20 þúsund króna verðlaun. Þátttakendur geta skráð sig á Grand-Rokk, Smiðjustíg 6, þar sem mótið verður haldið. Keppnisgjald er 300 krónur á hverju móti og eru allir skákáhugamenn, 20 ára og eldri, velkomnir. Fullorðinsmót á mánudag Taflfélagið Hellir hleypti af stokkunum nýjum þætti í starfsemi félagins síðastliðið vor með því að bjóða upp á skákmót fyrir skákmenn 25 ára og eldri. Sjöunda fullorðinsmót Hellis verður haldið mánudaginn 18. október klukkan 20. Teflt verður í Hellisheimilinu, Þönglabakka 1 í Mjódd, þ.e. á sama stað og deildakeppnin var haldin um síðustu helgi. Tefldar verða 7 skákir eftir Monrad-kerfi þar sem hvor keppandi hefur 10 mínútna umhugsunartíma. Ekkert þátttökugjald er á fullorðinsmótum Hellis. Þeir Rúnar Berg og Magnús Gunnarsson sigruðu á síðasta fullorðinsmóti Hellis, sem haldið var í september. Eins og áður sagði eru fullorðinsmótin aðeins hugsuð fyrir 25 ára og eldri. Skákmót á næstunni 18.10. Hellir. Fullorðinsmót kl. 20 21.10. SA Tíu mínútna mót kl. 20 23.10. SÍ Heimsm.mót barna 25.10. Hellir. Atkvöld 28.10. SA Öldungamót kl. 20 31.10. Hellir. Kvennamót 31.10. SA Hausthraðskákmót kl. 14 31.10. TR Hausthraðskákmót Aðstandendur móta, sem hafa fengið kynningu í skákþættinum, eru beðnir um að senda inn upplýsingar um stöðu og úrslit mótanna. Daði Örn Jónsson