Spurning: Hvað er það sem nefnt hefur verið sjálf og hvaða hlutverki gegnir það í sálarlífi og atferli mannsins? Svar: Orðið sjálf hefur tvenns konar merkingu í íslensku sálfræðimáli. Annars vegar stendur það fyrir sjálfsmynd einstaklingsins, þá tilfinningu sem hann hefur fyrir sjálfum sér sem sérstök persóna aðskilin frá öðru fólki.
Hvað er sjálfið? Sálarlíf

GYLFI ÁSMUNDSSON SVARAR SPURNINGUM LESENDA

Spurning: Hvað er það sem nefnt hefur verið sjálf og hvaða hlutverki gegnir það í sálarlífi og atferli mannsins?

Svar: Orðið sjálf hefur tvenns konar merkingu í íslensku sálfræðimáli. Annars vegar stendur það fyrir sjálfsmynd einstaklingsins, þá tilfinningu sem hann hefur fyrir sjálfum sér sem sérstök persóna aðskilin frá öðru fólki. Þetta nefnist á ensku self. Hins vegar er það notað um hóp starfshátta sálarlífsins í kenningum sálkönnunar og er eitt mikilvægasta hugtakið í þeirri heildarmynd sem sálkönnun gerir sér af persónuleikanum og sálarlífinu. Þetta er nefnt ego, sem bókstaflega þýðir ég, en hefur verið nefnt sjálfið á íslensku fagmáli sálfræðinnar. Sálkönnun Freuds gengur út frá því að sálarlífið sé síumbreytanleg orka, sem tekur á sig hinar ýmsu myndir í skynjun, hugsun, tilfinningalífi og atferli. Kerfi sálarlífsins eru þrjú, id eða það, egó eða sjálf og superegó eða yfirsjálf. Í upphafi er þaðið allsráðandi í sálarlífinu, frumstæð orka sem flæðir stjórnlaust fram án tillits til hins ytri veruleika, en tekur aðeins mið af innri frumstæðum hvötum. Þaðinu má líkja við óbeisluð náttúruöflin, eins og fljótið sem fellur óbeislað til sjávar. Sjálfið er hins vegar eins og orkuver, sem byggt er til þess að beisla þessa orku og nýta á ýmsan hátt. Í starfsháttum sjálfsins má sjá hvernig þessi orka nýtist. Einstaklingurinn lagar sig að hinum ytri veruleika og sálarlíf hans nær þroska, sem gerir hann hæfan til að lifa í samfélagi við aðra. Þriðja kerfið, yfirsjálfið, felur síðan í sér nokkurs konar eftirlit með því að frumstæðar kenndir frá þaðinu, sem brjóta í bága við siðferðiskennd mannsins og siðareglur samfélagsins, sleppi ekki út. Í upphafi er það persónugert í foreldrunum, boðum þeirra og bönnum, en verður síðan að innri siðgæðisvitund og samvisku einstaklingsins. Starfshættir sjálfsins eru nokkrir. Samband við raunveruleikann felst í því að laga sig að hinum ytri veruleika, fresta fullnægingu frumþarfa, laga þær eftir aðstæðum eða laga umhverfið að eigin þörfum. Það felst einnig í því að greina á milli hins ytri og innri veruleika, að átta sig á hvað eru ímyndanir og hvað umhverfisáhrif. Einnig felst það í því að greina sjálfan sig frá öðrum og öðlast skýra sjálfsmynd, sbr. merkingin á orðinu sjálf hér að ofan. Annar starfsháttur er stjórn á hvatalífinu, að vinna þannig úr hinni frumstæðu orku að það samrýmist siðaboðorðum samfélagsins. Temja verður geðshræringar eins og reiði og ást og setja þær í þann búning sem aðstæður á hverjum stað og tíma viðurkenna og leyfa. Þriðji starfshátturinn er geðtengsl við annað fólk. Geðtengsl þroskast smám saman, aðallega fyrir samband barnsins við foreldra sína. Í þessum samskiptum þroskast tilfinningalíf barnsins og það lærir að vera bæði gefandi og þiggjandi í tilfiningalegum tengslum við annað fólk. Fjórði starfsháttur sjálfsins er hugsun. Í fyrstu er hugsunin órökræn og tekur ekki tillit til hins ytri veruleika. Þetta er hugsun þaðsins sem stjórnast eingöngu af frumstæðum hvötum. Með þroska sjálfsins fer barnið að taka tillit til hins hlutbundna veruleika og hugsunin verður rökræn. Í fimmta lagi eru varnarhættirnir sem eru til þess að hafa hemil á frumstæðum hvötum og kenndum sem leita útrásar og valda einstaklingnum kvíða. Algengasti varnarhátturinn er bæling, sem þrýstir kenndinni niður í dulvitundina, gleymir henni. Allir beita varnarháttunum í meira eða minna mæli, en ofnotkun þeirra leiðir til innri spennu, sem fær útrás í einkennum hugsýkinnar. Að lokum er samhæfingarstarfsemi sjálfsins, sem eins og nafnið gefur til kynna samræmir starfshættina og er nokkurs konar framkvæmdastjóri sjálfsins. Starfshættirnir vinna þá saman sem ein heild og birtast í persónuleika mannsins. Á meðan sjálfið er vanþroska og hefur ekki náð að beisla hin frumstæðu öfl lýsir það í grófum dráttum sálarlífi ungra barna. Síðar á ævinni getur þroskað sjálf hins vegar brotnað niður. Það er eins og virkjunin bresti og óbeisluð náttúruöflin flæði fram á ný. Þetta gerist í alvarlegri geðveiki (psykosis), og starfshættir sjálfsins taka aftur á sig þá mynd sem sjá má hjá ungum börnum. Tengsl sjúklingsins við veruleikann rofna, hann gerir ekki lengur greinarmun á ímyndunum og veruleika, sem kemur fram í ranghugmyndum og ofskynjunum. Sjálfsmynd hans verður óljós. Hann missir stjórn á hvötum sínum og löngunum. Geðtengsl við annað fólk rofnar, þannig að hann hverfur inn í sjálfan sig. Hugsunin verður órökræn og hættir að taka mið af hinum ytri veruleika. Varnarhættirnir verða óvirkir. Kenning sálkönnunar um kerfi sálarlífsins er hugsmíð eða hugmyndakerfi, byggt á athugunum og reynslu Freuds og síðari tíma sálkönnuða á fólki, ekki síst sjúklingum í meðferð. Hún byggist ekki nema að takmörkuðu leyti á vísindalegum rannsóknum og tilraunum. Sem kenning er hún hvorki rétt eða röng, en hún gerir þeim, sem styðjast við hana í starfi sínu, kost á að skoða margslunginn mannshugann í skiljanlegu heildarsamhengi.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt sálfræðinginn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222. Ennfremur símbréf merkt: Gylfi Ásmundsson, Fax: 5601720.