HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt þrítugan karlmann til greiðslu 300 þúsund króna sektar, en hann var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félags, sem rak skemmtistað í Reykjavík um tíma. Hæstiréttur sagði sannað að staða mannsins hafi verið til málamynda og hann í raun ekki haft með höndum fjármálastjórn félagsins.
Dæmdur vegna gáleysis og hirðuleysis HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt þrítugan karlmann til greiðslu 300 þúsund króna sektar, en hann var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félags, sem rak skemmtistað í Reykjavík um tíma. Hæstiréttur sagði sannað að staða mannsins hafi verið til málamynda og hann í raun ekki haft með höndum fjármálastjórn félagsins. Hann hafi hins vegar af "stórkostlegu gáleysi" brotið gegn þeim skyldum sem þessi staða hans lagði á hans herðar. Hlutafélagið Vökvi tók við reksti veitingastaðarins "Tveir vinir og annar í fríi" í september 1993 og rak hann þar til snemma árs 1995, en sömu aðilar ráku veitingastaðinn frá ágúst 1992 til maí 1997 í nafni þriggja hlutafélaga. Maðurinn var skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Vökva, að eigin sögn til málamynda þar sem eigendurnir máttu ekki hafa prókúru vegna fyrri vanskila. Annar eigendanna staðfesti þetta fyrir dómi og sagði hann manninn ekki hafa komið að rekstri staðarins, sem m.a. stóð ekki skil á virðisaukaskatti til ríkissjóðs. Maðurinn, sem var barþjónn, lét af störfum á veitingastaðnum um áramótin 1993­1994, en var skráður stjórnarformaður þar til félagið var tekið til gjaldþrotaskipta rúmu ári síðar. Hæstiréttur bendir á það í dómi sínum að maðurinn hafi ekki hlutast til um að breyting yrði gerð á skráðri stöðu hans eftir að hann lét af störfum. Þótt staða hans hafi verið til málamynda breyti það engu um að hann hafi verið fyrirsvarsmaður félagsins og borið skyldur samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. "Með aðgerðaleysi sínu vanrækti ákærði af stórkostlegu gáleysi þær skyldur varðandi bókhald félagsins, sem hvíldu á honum lögum samkvæmt sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Vökva hf.," segir Hæstiréttur, sem kemst einnig að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattskýrslum yrði skilað og skatturinn greiddur.