SAMRUNI fyrirtækjanna Akoplasts hf. á Akureyri og Plastos- umbúða ehf. í Garðabæ, undir nafni Ako/Plastos hf., gekk formlega í gegn í byrjun síðasta mánaðar. Fyrirtækin hafa þó verið rekin sameiginlega allt þetta ár, eða frá því að eigendur Upphafs ehf., sem áttu Akoplast, keyptu tæplega 80% hlut í Plastos-umbúðum í árslok 1998 með sameiningu fyrirtækjanna í huga.
Formlegur samruni Akoplasts og Plastos-umbúða undir nafni Ako/Plastos formlega genginn í gegn Fyrirtæki með nýja og skarpari sýn á framtíðina

SAMRUNI fyrirtækjanna Akoplasts hf. á Akureyri og Plastos- umbúða ehf. í Garðabæ, undir nafni Ako/Plastos hf., gekk formlega í gegn í byrjun síðasta mánaðar. Fyrirtækin hafa þó verið rekin sameiginlega allt þetta ár, eða frá því að eigendur Upphafs ehf., sem áttu Akoplast, keyptu tæplega 80% hlut í Plastos-umbúðum í árslok 1998 með sameiningu fyrirtækjanna í huga. Upphaf er í eigu þeirra Daníels Árnasonar, Eyþórs Jósepssonar og Jóhanns Oddgeirssonar og starfa þeir allir hjá Ako/Plastos. Rekstur Plastos-umbúða hefur verið erfiður síðustu ár og var fyrirtækið rekið með miklu tapi á síðasta ári, á sama tíma og Akoplast var rekið á núlli. Sameiginlegur rekstur á þessu ári undir nafni Ako/Plastos hefur gengið samkvæmt áætlun að sögn Daníels Árnasonar og taprekstri verið snúið við, þó gert sé ráð fyrir einhverju tapi í árslok. Á næsta ári er hins vegar gert ráð fyrir hagnaði af rekstri Ako/Plastos.

"Úr þessum tveimur félögum sem voru að bítast á markaðnum erum við að skapa fyrirtæki með nýja og skarpari sýn á framtíðina. Við ætlum að koma okkur þannig fyrir á umbúðamarkaðnum að við komust vel af rekstrarlega og sjáum ljósið framundan. Umhverfið hefur verið að breytast og það hefur átt sér stað töluverð þróun í markaðsstarfi fyrirtækja á undanförnum árum og þau meira farið út í að bjóða heildarlausnir og þar erum við engin undantekning. Menn verða að þjónusta sína viðskiptavini vel og bjóða upp á vöru sem tengist kjarnavörunni, sem í okkar tilfelli eru plastumbúðir. Hins vegar er nú komið að því að fyrirtæki fari að huga að því að verða virkilega góð á sínu sviði og það er komið að því fyrir okkur að finna nýja fleti og sérhæfa okkur. Samkeppni innlendra aðila og ekki síður erlendis frá kallar á það að menn vandi sig og geri betur bæði í framleiðslu og markaðssetningu. Íslenski markaðurinn er líka krefjandi og gerir kröfur um skjótan afhendingartíma vegna sveiflna í hinum ýmsu greinum, eins og t.d. í sjávarútvegi. Fyrirtæki þurfa í þeim tilfellum að geta svarað óvæntri eftirspurn eftir vöru," sagði Daníel.

Samruni krefjandi ferli

Ako/Plastos býður upp á breitt vörusvið í plasti en fyrirtækið hefur enn ekki farið út í framleiðslu á pappírsumbúðum. Krafan um meiri gæði hefur aukist, t.d. í litgreiningu, og hefur verið fjárfest í framleiðslutækjum og búnaði til að gera fyrirtækið samkeppnishæfara. Viðskiptahópurinn er stór og breiður, allt frá sjoppum upp í stórmarkaði og frá heimabakstri í stóra framleiðendur í matvælaiðnaði. Einnig framleiðir Ako/Plastos plastumbúðir til heimilisnota og fyrir stofnanir og fyrirtæki.

Daníel sagði að samruni fyrirtækjanna væri krefjandi ferli sem reyndi mjög á innviði þeirra. Markmiðið væri að ná því besta út úr hvoru fyrirtæki fyrir sig. Hann sagði ljóst að samlegðaráhrifin væru umtalsverð og hagræðingin kæmi fyrst og fremst fram á framleiðslu-, þjónustu- og stjónunarsviði. "Við keyptum fyrirtæki í miklum taprekstri og það er okkar verkefni að snúa rekstrinum til betri vegar. Milliuppgjör fyrstu sex mánuði þessa árs sýnir að okkur hefur tekist að minnka lekann. Heildartap er um 19 milljónir króna, þar af tæpar 16 milljónir króna vegna breyttra matsaðferða í uppgjöri og samrunakostnaðar. Tekjurnar hafa dregist saman um 10%, þar sem við höfum hætt að sinna ýmsum verkefnum sem rekin voru með tapi en framlegðin hefur staðist væntingar okkar og um það snýst málið."

Húsnæði til sölu norðan og sunnan heiða

Í kjölfar sameiningar fyrirtækjanna var ákveðið að flytja framleiðsludeild Ako/Plastos frá Garðabæ til Akureyrar. Fyrirtækið keypti húsnæði Rafveitu Akureyrar við Þórsstíg á árinu og þar er verið að reisa 2.200 fermetra viðbyggingu úr stálgrind. Þegar viðbyggingunni verður lokið verður húsið í heild orðið um 3.800 fermetrar að stærð. Þangað verður öll starfsemin á Akureyri flutt fyrir nk. áramót og er ráðgert að þar starfi 50­60 manns í framtíðinni.

Húsnæði Ako/Plastos við Tryggvabraut, sem er um 1.800 fermetrar, verður selt og einnig tæplega 5.000 fermetra húseign við Suðurhraun í Garðabæ. Áfram verður rekin þjónustu- og markaðsdeild á höfuðborgarsvæðinu, með um 15 starfsmönnum. Unnið er að því að finna hentugt húsnæði, í kringum 700 fermetra, undir þá starfsemi í Reykjavík. Við þessar breytingar mun húsakostur fyrirtækisins minnka um 2.200 fermetra.

Vilja fleiri konur í framleiðsludeildina

Eyþór Jósepsson sagði að ein meginástæðan fyrir því að framleiðsludeildin væri flutt norður snúi að starfsmannamálum en mikill órói og þensla sé á höfuðborgarsvæðinu. Einnig væru mjög stórir viðskiptavinir á landsbyggðinni. "Þetta snýr ekki bara að launaþenslu, heldur líka að starfsmannaveltu. Eitt af því sem hefur háð þessum iðnaði til nokkurra ára er mikill kostnaður vegna galla á vöru og mikill kostnaður við þjálfun á nýju starfsfólki. Hér fyrir norðan erum við að leita að stöðugu vinnuafli í framleiðsluna, sem er tilbúið að starfa með okkur að uppbyggingu fyrirtækisins. Við höfum verið að fjölga starfsfólki á Akureyri jafnt og þétt en á sama tíma erum við að styrkja þjónustu- og markaðsdeildina fyrir sunnan, sem ekki skiptir síður máli. Nú starfa um 40 manns á Akureyri og um 25 fyrir sunnan en starfsfólki á eftir að fækka um 10 í Reykjavík en fjölga um 10­20 fyrir norðan."

Eyþór sagði að nú þegar vantaði 4­6 starfsmenn í framleiðsludeildina á Akureyri og væri mikill áhugi fyrir því að ráða konur til starfa. "Við leggjum áherslu á að fá konur til starfa til jafns við karla í framleiðsludeildina. Þessi störf henta báðum kynjum tvímælalaust ­ hér er ekki um að ræða erfiðisvinnu heldur þrifalega vinnu á nýjum og góðum vinnustað."

Frekari sameining ekki á döfinni

Enn frekari sameining fyrirtækja í þessum iðnaði hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu og m.a. verið velt upp möguleika á sameiningu Ako/Plastos og Plastprents í Reykjavík. Daníel sagði að á meðan unnið væri að því að snúa rekstri fyrirtækisins til betri vegar sæi hann ekki tilgang í að huga að frekari sameiningu. "Okkar áætlanir ganga eftir og það þyrfti eitthvað mikið að gerast til að þær yrðu settar úr skorðun. Við höfum verið heppnir með starfsfólk og það er ein meginástæðan fyrir því að við erum á réttri leið og að okkur hefur tekist að stórbæta reksturinn. Og við erum þess jafnframt fullvissir að við eigum eftir að gera enn betur."

Morgunblaðið/Kristján Framkvæmdir við viðbyggingu húsnæðis fyrirtækisins á Þórsstíg 4 eru í fullum gangi en öll starfsemin á Akureyri verður komin þar undir eitt þak fyrir áramót.