Sð setja sig á háan hest. Skelfing var oft notalegt í gamla daga þegar maður gat yljað sér við geisla þjóðarsálarinnar. Eftir því sem rásum í þjóðfélaginu hefur fjölgað virðist svo sem okkur Íslendingum sé orðið fátt sameiginlegt og að við séum að renna saman við litlaust þjóðahaf í heimsþorpinu eins og gáfumenn taka stundum til orða.
RABBAÐ SETJA SIG Á HÁAN HEST
Sð setja sig á háan hest. Skelfing var oft notalegt í gamla daga þegar maður gat yljað sér við geisla þjóðarsálarinnar. Eftir því sem rásum í þjóðfélaginu hefur fjölgað virðist svo sem okkur Íslendingum sé orðið fátt sameiginlegt og að við séum að renna saman við litlaust þjóðahaf í heimsþorpinu eins og gáfumenn taka stundum til orða. Getur verið að margnefnd sál sé ekki lengur til eða komin í einhvers konar bandalag við alheimssálina? Ýmislegt bendir til þess, en þó verða stöku atburðir til þess að sameina okkur og tengja okkur þjóðararfinum sem maður hélt að væri týndur og tröllum gefinn. Mér finnst eitthvað slíkt liggja í loftinu núna. Fólk sýnist að minnsta kosti ekki skorta sameiginlegt umræðuefni þessa dagana og tilfinningalegt svigrúm hefur verið með ágætum. Þegar býður þjóðarsómi þá á Bretland eina sál. Svona orti Einar Benediktsson um stórveldið, sem þá var og hét, en vel gætu þessar fallegu ljóðlínur átt við um Íslendinga til skamms tíma. Við, sem lásum Íslandssögu Jónasar frá Hriflu, drukkum það í okkur að baðstofumenningin hefði verið ein og sönn og baráttan gegn erlendum ósóma búið í brjósti hárra sem lágra. Samkvæmt þeim kokkabókum var heimsmyndin einföld og þrátt fyrir meinlítil átök var sál landans nánast órofa heild. En smám saman breyttist þessi hlýlega hugmyndafræði, öllu var snúið við og nú er okkur jafnvel sagt að stórbændur hafi verið vondir en Danir góðir. Ekki hafði því verið um Álftanes spáð en álíka axlaskipti urðu smám saman á öðrum sannindum. Lengi vel rann þó menningin að mestu í sama farvegi. Flestir lásu Laxness, hlustuðu á hina einu sönnu Gufu, báru gott skynbragð á fréttir og stóðu þétt saman í landhelgismálinu. Á fyrstu árum sjónvarps gat landslýður allur sameinast í raunum Forsythe-fjölskyldunnar eða borið saman bækur um afrek Dýrlingsins. Hvort tveggja blandaðist ljúflega saman við hina séríslensku sál. Þjóðin var sem sé ekki af baki dottin þótt baðstofulífið heyrði fortíðinni til. En svo helltust þær yfir okkur allrar þessar rásir og brautir, kynslóðabilið varð óbrúandi ginnungagap og einstaklingarnir kostuðu kapps um að fara hver sína leið. Menn fóru að sletta í bak og fyrir og vitna út og suður í erlendar fyrirmyndir. Glæsileg nýyrði á borð við menningarhelgi Íslendinga heyrðust ekki lengur og nú snerist allt um einhver fínheit frá útlöndum. Síðan hafa deiluefnin í þjóðfélaginu verið að stigmagnast og menn rífast nú sem ákafast um það sem ekki var nefnt á nafn í gamla daga. Menn kaffæra hverjir aðra í rifrildi um hvort nektardans sé list og skiptast í fylkingar með eða á móti gagnagrunni og samkynhneigðum. Svo er þráttað um eignarhald á bönkum og einhvern veginn hefur sú umræða tengst glæpastarfsemi sem sumir eru hátíðlega hneykslaðir á. Stórir þjóðfélagshópar vilja ólmir fá Fljótsdalsvirkjun í gagnið aðrir fullyrða að þar sé verið að kasta perlum fyrir svín. Ekki síst láta menn gamminn geisa um aldamótaárið, staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og smávægilegustu málefni hafa skipt þjóðinni upp í fleiri hópa en tölu verður á komið. Deiluefnin eru svo mögnuð að Rás 2 getur ekki lengur axlað þá ábyrgð að halda úti Þjóðarsál og þar var vissulega úr háum söðli að detta. Til að bæta gráu ofan á svart hafa menn stöðugar áhyggjur af uppdráttarsýki íslenskrar tungu og hafa þar til marks að unga fólkið sé steinhætt að skilja einföldustu orð og orðasambönd. Það sperri upp eyrun eins og fælin hross þegar það heyri ágæt orðtök eins og að bera kápuna á báðum öxlum, að ekki sé riðið við einteyming og hafi ekki hugmynd um að kýr beri en hryssur kasti. Samt gerast stundum svo áhrifamiklir atburðir að þeir ná á svipsundu að setja saman brotin úr okkar sundruðu þjóðarsál. Þessum atburðum má líkja við myndrænar frásagnir úr Íslendingasögnum, er blundað hafa með okkur þrátt fyrir allrar hræringarnar, en vakna nú til nýs lífs og verða kveikja listrænnar sköpunar sem finnur sér farveg á nettengdum þjóðbrautum. Ferskeytla Frónbúans gengur í endurnýjun lífdaganna glettin og ísmeygileg. Og engan skortir umræðuefni, hvorki vinnustaði, saumaklúbba né unglingahópa. Ég man eftir nokkrum slíkum atburðum sem tengt hafa saman okkar sundruðu þjóðarsál undanfarin ár en enginn þeirra verður tilgreindur hér. Hins vegar snerta þeir ekki þjóðarsóma eins og hagsmunamálin á dögum baðstofumenningarinnar. Miklu fremur lúta þeir að hinu gagnstæða. Við erum nefnilega pínulítið meinfýsin og hendum gaman að því þegar fólki verður eitthvað á, einkanlega þegar það þekkir ekki sín takmörk. Ef hægt er að taka svo til orða að íslensk menning búi yfir einhverri sérstöðu þá er það andúð á hvers konar viðleitni til að hefja sig upp yfir fjöldann og gera meira úr stöðu sinni en efni standa til. Ekki er það nein tilviljun að rauði þráðurinn í Íslendingasögunum er: Dramb er falli næst. Þetta boðorð virðist lifa góðu lífi í íslensku samfélagi þótt við séum væntanlega fullgildir aðilar að heimsþorpinu, svo aftur sé vitnað í gáfumennina. En er það ekki einmitt þessi gamla meginregla sem við getum lagt af mörkum í samfélagi þjóðanna ef við erum á annað borð einhvers megnug? Mér er nær að halda að svo sé. Óskrifuð jafnræðiskrafa og rótgróin fyrirlitning á hvers kyns fordild eru þeir þættir íslenskrar menningar sem umheimurinn getur helst af okkur lært til að stuðla að auknum jöfnuði og þar af leiðandi betra mannlífi. Að sjálfsögðu geymir saga okkar dæmi af einstaklingum og þjóðfélagshópum sem gripið hafa til hégómlegra ráða í máttvana tilraunum til að hefja sig upp yfir fjöldann. Sem dæmi þar um má nefna að hjá betra slekti í krummaskuðum forðum tíðkaðist víst að tala dönsku á sunnudögum. Yfirleitt vildi þá ekki betur til en svo að bögubósar hnutu um erlenda tungubrjóta og þurftu því að fylla upp í frásögnina með glefsum úr móðurmálinu. Fyrir vikið urðu þeir að almennu athlægi eins og ýmsar skondnar frásagnir vitna um. Þannig fer líka oftast fyrir þeim sem setja sig á háan hest. GUÐRÚN EGILSON