REYKLAUSUM 7. og 8. bekkjum grunnskóla landsins gefst kostur á að taka þátt í Evrópusamkeppni reyklausra bekkja á þessu skólaári og er markmið keppninnar að hvetja nemendur til að vera "frjálsa og reyklausa" og fikta aldrei við reykingar. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk ungmenni taka þátt í þessari samkeppni en meðal verðlauna er ferð fyrir heilan bekk til Berlínar í júní árið 2000.
Evrópusamkeppni meðal reyklausra bekkja Eiga kost á ferð

til Berlínar

REYKLAUSUM 7. og 8. bekkjum grunnskóla landsins gefst kostur á að taka þátt í Evrópusamkeppni reyklausra bekkja á þessu skólaári og er markmið keppninnar að hvetja nemendur til að vera "frjálsa og reyklausa" og fikta aldrei við reykingar. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk ungmenni taka þátt í þessari samkeppni en meðal verðlauna er ferð fyrir heilan bekk til Berlínar í júní árið 2000. Uppruna keppninnar má rekja til Finnlands fyrir níu árum en þátttökulönd eru nú orðin alls 14.

Tóbaksvarnanefnd og Krabbameinsfélag Reykjavíkur standa að keppninni hér á landi en verndari hennar er Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra. Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur, segir að allir skólar landsins ættu að vera búnir að fá upplýsingar um keppnina og bendir á að reyklausir bekkir geti skráð sig til þátttöku til 20. október nk. Þátttakendur eiga síðan að senda staðfestingu til aðstandenda keppninnar einu sinni í mánuði um að bekkurinn sé reyklaus en samhliða því er m.a. ætlast til þess að bekkirnir vinni að verkefnum í tengslum við tóbaksvarnir.

Guðlaug segir að fleiri verðlaun verði í boði auk Berlínarferðarinnar til að mynda dagsferðir fyrir tíu bekki á vit ævintýranna, ferðageislaspilarar og geisladiskar. Fyrstu vinningarnir verða dregnir út í mars á næsta ári. "Að auki hvetjum við krakkana til að búa til slagorð gegn reykingum og höfum hugsað okkar að nýta þau slagorð til dæmis á boli eða á húfur. Með þessu viljum við virkja sköpunarkraft nemendanna."

Morgunblaðið/Árni Sæberg Formaður Tóbaksvarnanefndar, Þorsteinn Njálsson, kynnir Evrópusamkeppnina, en við hlið hans situr Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Reykjavíkur. Reyklausir nemendur úr sjöunda og áttunda bekk Álftamýrarskóla fylgjast grannt með.