NÝJASTA kaffið sem Kaffi Puccini hefur fengið til landsins frá bandaríska fyrirtækinu Barnie's heitir Hawaiian Kona. Það er sjaldgæft kaffi þar sem baunirnar eru ræktaðar við rætur eldfjallsins Mauna Loa í takmörkuðu magni.
Nýjar kaffitegundir á Kaffi Puccini

Sjaldgæft kaffi

frá Hawaii

NÝJASTA kaffið sem Kaffi Puccini hefur fengið til landsins frá bandaríska fyrirtækinu Barnie's heitir Hawaiian Kona. Það er sjaldgæft kaffi þar sem baunirnar eru ræktaðar við rætur eldfjallsins Mauna Loa í takmörkuðu magni. Örn Þorvarðarson, einn eigenda Kaffi Puccini, segir að umrædd kaffitegund sé nokkuð dýr, 250 gramma pakki kostar rúmlega tvö þúsund krónur, en hann segir kaffiunnendur ekki setja verðið fyrir sig.

Þá segist hann nýlega hafa fengið kaffið Guatemala Huchuetanango til landsins en baunirnar í þessu kaffi vaxa í 3.500 metra hæð á Cuchumantanesfjallgarðinum í Guatemala. Auk þessa er nýkomið í sölu hjá Kaffi Puccini kaffið Puerto Rican Yauco Selcto. Kaffið er ræktað í suðvesturhluta Yaucofjalla í Puerto Rico. Að lokum segir Örn að nýkomið sé til landsins súkkulaðikaffi sem er með hvítu súkkulaði.

Þá hefur Kaffi Puccini hafið sölu á kaffi í lokuðum plastmálum til að taka með sér og er hægt að velja um hvaða kaffitegund kaffihússins sem er.