KONUR sem eiga erfitt með niðurbrot fólínsýru eiga fremur á hættu að eignast börn með Downs-heilkenni, að því er vísindamenn, er starfa á vegum Bandaríkjastjórnar, hafa komist að. Vekur þetta spurningu um það, hvort vítamínskammtar geti gagnast gegn Downs-heilkennum, líkt og þeir gera gegn ýmsum öðrum fötlunum.
Fólinsýra gæti minnkað

líkur á Downs-heilkenni

AP

KONUR sem eiga erfitt með niðurbrot fólínsýru eiga fremur á hættu að eignast börn með Downs-heilkenni, að því er vísindamenn, er starfa á vegum Bandaríkjastjórnar, hafa komist að. Vekur þetta spurningu um það, hvort vítamínskammtar geti gagnast gegn Downs-heilkennum, líkt og þeir gera gegn ýmsum öðrum fötlunum.

Mæður með arfgengan afbrigðileika, er kemur í veg fyrir fólínsýruefnaskipti, reyndust 2,6 sinnum líklegri til að eignast börn með Downs-heilkenni en mæður sem ekki höfðu þennan afbrigðileika, að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknar er birtar voru í American Journal of Clinical Nutrition 28. september.

Vísindamenn er starfa hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) gerðu uppgötvunina, en framkvæmdastjóri eftirlitsins, Jane Henney, sagði hana einungis lítið brot af svarinu við þeirri gátu sem Downs væri. Milljónir kvenna virðast hafa umræddan afbrigðileika, en líkurnar á að eignast barn með Downs-heilkenni eru samt lítlar - eða einn á móti sex hundruð. Því hlýtur orsaka heilkennanna að vera að mestu að leita annars staðar.

Engu að síður "bendir þetta til þess að vert sé að athuga aðra erfðavísa," sagði S. Jill James, lífefnafræðingur, sem stýrði rannsókninni. Sérfræðingar í fæðingargöllum eru ennfremur áhugasamir vegna þess að niðurstöðurnar benda til þess að hægt sé að draga úr líkunum með því að neyta meiri fólínsýru. Þetta hefur þó ekki verið sannað.

"Hafi maður þennan afbrigðileika og neytir óhollrar fæðu margfaldar það áhættuna," sagði James. Fólínsýra er B-vítamín sem er að finna í grænmeti, baunum, túnfiski, eggjum og fleiri matvælum. Á síðasta ári voru settar reglur í Bandaríkjunum um að fólínsýru sé bætt í ýmsan kornmat, til dæmis hveiti og morgunkorn.

Konur sem neyta 400 míkrógramma af fólínsýru á dag minnka um helming líkurnar á að eignast börn með fæðingargalla í heila eða mænu. Hvort barn fæðist með þessi frávik ræðst á fyrstu dögunum eftir getnað, áður en móðirin veit að hún er barnshafandi. Sérfræðingar í heilbrigðismálum mælast til þess að allar konur á barneignaraldri taki á hverjum degi fæðubótarefni, til dæmis fjölvítamín, sem inniheldur 400 míkrógrömm af fólínsýru.

Presslink

Foreldrar Gradys McGrew vissu, áður en hann fæddist, að hann hefði Downs-heilkenni. Hér er hann 1 árs gamall, hraustur drengur og stolt foreldra sinna.