NOKKRIR af helstu kraftajötnum heims koma saman til keppni á Akureyri í dag laugardag og á morgun, sunnudag. Keppnin ber yfirskriftina; Víkingar norðursins og munu kraftajötnarnir reyna með sér í sex keppnisgreinum. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem slík keppni fer fram norðan heiða.
Sterkustu menn

heims takast á

NOKKRIR af helstu kraftajötnum heims koma saman til keppni á Akureyri í dag laugardag og á morgun, sunnudag. Keppnin ber yfirskriftina; Víkingar norðursins og munu kraftajötnarnir reyna með sér í sex keppnisgreinum.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem slík keppni fer fram norðan heiða. Kraftajötnarnir, sem eru víða að úr heiminum, eru engin smásmíði en sá þyngsti þeirra er 199 kg en sá léttasti 135 kg. Fulltrúi Íslands er Torfi Ólafsson, sterkasti maður Íslands, Íslands eina von en hann er tveir metrar á hæð og 182 kg.

Torfi sagði keppnina leggjast vel í sig og hann ætlar sér ekkert annað en sigur. "Ég fer aldrei í keppni til annars en að vinna og annað hvort rassskelli ég þá eða þeir mig. Þetta er þó fyrst og fremst skemmtun fyrir áhorfendur og ég á von á mjög skemmtilegri keppni."

Trukkadráttur í dag

Keppendur auk Torfa eru Magnus Samuelsson, Svíþjóð, sterkasti maður heims 1998, hæð 200 cm og 144 kg, Janne Virtanen Finnlandi, annar sterkasti maður í heimi 1999, hæð 192 cm og 135 kg, Hugu Girard, sterkasti maður Kanada, hæð 187 cm og 150 kg, Glenn Ross, sterkasti maður Írlands, hæð 181 cm og 199 kg, Jamie Reeves Englandi, sterkasti maður heims 1989, hæð 192 cm og 150 kg og Reigin Vágadal, sterkasti maður Færeyja, hæð 187 cm og 137 kg. Alþjóðlegur dómari keppninnar er Jackie Reeves frá Bretlandi.

Í dag laugardag fer fram ein keppnisgrein en þá reyna kraftajötnarnir með sér í trukkadrætti. Keppt verður á plani Eimskips við Oddeyrarskála og hefst keppni kl. 11. Á morgun, sunnudag, fer keppnin fram í Íþróttahöllinni og hefst þá kl. 13.30. Þar verður keppt í fimm greinum, bóndagöngu, bíldrætti á höndum, hleðslu, axlarlyftu og drumbalyftu. Höllin verður opnuð almenningi klukkustundu áður en keppnin hefst.

Margir vildu taka þátt

Auk þess að taka þátt í keppninni hefur Torfi einnig komið að undirbúningi, sem staðið hefur yfir í marga mánuði. Hann sagði það ekki hafa verið erfitt að fá þessa miklu kraftakarla til að koma til Akureyrar, "ég hefði getað fengið miklu fleiri".

Morgunblaðið/Kristján Akureyringurinn Torfi Ólafsson og félagi hans Hugo Girard frá Kanada munu takast á í kraftakeppni á Akureyri í dag og á morgun ásamt fimm öðrum kraftajötnum.