BRESKIR Evrópusinnar úr öllum flokkum með Tony Blair forsætisráðherra í broddi fylkingar hleyptu í fyrradag af stokkununum herferð, sem þeir kalla "Bretland í Evrópu". Sagði Blair, að það væri "brjálæði" að loka öllum dyrum á evruna eða Evrópska myntbandalagið og í gær sagði hann, að ríkisstjórnin væri hlynnt aðild að myntbandalaginu ef vel tækist til með gjaldmiðilinn.
Stjórnmálamenn sameinast um "Bretland í Evrópu"

Úrsögn "jafngildir efnahagslegri limlestingu"

Hague boðar eigin herferð, "Baráttuna fyrir pundinu"

London. Reuters, Daily Telegraph.

BRESKIR Evrópusinnar úr öllum flokkum með Tony Blair forsætisráðherra í broddi fylkingar hleyptu í fyrradag af stokkununum herferð, sem þeir kalla "Bretland í Evrópu". Sagði Blair, að það væri "brjálæði" að loka öllum dyrum á evruna eða Evrópska myntbandalagið og í gær sagði hann, að ríkisstjórnin væri hlynnt aðild að myntbandalaginu ef vel tækist til með gjaldmiðilinn. William Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins, ætlar að hefja sína eigin herferð, "Baráttuna fyrir pundinu", um allt Bretland.

Tony Blair; Michael Heseltine, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins; Kenneth Clarke, fyrrverandi fjármálaráðherra Íhaldsflokksins; Charles Kennedy, leiðtogi frjálslyndra demókrata; Gordon Brown fjármálaráðherra og Robin Cook utanríkisráðherra sátu allir saman er baráttan fyrir "Bretlandi í Evrópu" var kynnt. Blair sagði, að Bretland ætti að gerast aðili að myntbandalaginu en þó því aðeins, að efnahagslegar aðstæður leyfðu það. Fyrst yrði þó að sannfæra þjóðina um, að Bretland ætti að vera fullgildur þátttakandi í Evrópusamstarfinu, einkum nú þegar andstæðingar þess væru að leggja á ráðin um úrsögn.

Vitnað í Winston Churchill

Hart var ráðist á Íhaldsflokkinn á fundinum og Heseltine vitnaði meðal annars í Winston Churchill og ræður hans um Bandaríki Evrópu. Í Íhaldsflokknum er enginn maður í meiri metum en Churchill nema ef vera skyldi Evrópuandstæðingurinn Margaret Thatcher.

Heseltine sagði, að það, sem gerðist í Evrópu, hefði afdrifaríkar afleiðingar fyrir breskt viðskiptalíf, fjárfestingar og allt atvinnulífið. "Ef við látum okkur vanta, verða leikreglurnar ákveðnar án samráðs við okkur. Það er ekki hægt að slá um sig með handtösku ef enginn er á staðnum," sagði Heseltine og var þar að vísa til Thatcher og framkomu hennar á sumum ESB-fundum áður fyrr.

Grundvallaratriði í efnahagslífinu

Clarke, fyrrverandi fjármálaráðherra Íhaldsflokksins, talaði enga tæpitungu. Sagði hann, að þeir, sem styddu baráttuna "Bretland í Evrópu", vildu aðild að myntbandalaginu þótt hún væri ekki tímabær á þessari stundu. Blair kinkaði kolli við því og sagði, að Evrópa væri ekkert aukaatriði í bresku efnahagslífi, heldur grundvallaratriði og mikilvægið ykist með degi hverjum. "Að segja skilið við Evrópu jafngildir efnahagslegri limlestingu."

William Hague, leiðtogi Íhaldsflokksins, ætlar að svara herferð Evrópusinnanna með "Baráttunni fyrir pundinu" eins og hann kallar það og hyggst fara um landið allt í því skyni.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, á milli þeirra Michael Heseltines, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins, og Kenneth Clarkes, fyrrverandi fjármálaráðherra Íhaldsflokksins.