DANSKA símaráðið, sem fylgist með þróun símamarkaðarins hefur áhyggjur af að samkeppni á símamarkaðnum hafi að hluta til leitt til ógagnsæs verðsamanburðar. Tilboðin séu svo mörg og margvísleg að erfitt sé fyrir símanotendur að bera þau saman og velja þau hagstæðustu, þótt öll símafélögin nema Sonofon hafi nýlega fallist á vissa samræmingu.

Áhyggjur vegna samkeppni á símamarkaði

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. DANSKA símaráðið, sem fylgist með þróun símamarkaðarins hefur áhyggjur af að samkeppni á símamarkaðnum hafi að hluta til leitt til ógagnsæs verðsamanburðar. Tilboðin séu svo mörg og margvísleg að erfitt sé fyrir símanotendur að bera þau saman og velja þau hagstæðustu, þótt öll símafélögin nema Sonofon hafi nýlega fallist á vissa samræmingu. Nýjasti angi fjölbreytninnar er tilboð Sonofon til fyrirtækja og stofnana um mjög ódýr símtöl, þar sem það er hins vegar helmingi dýrara að hringja til þeirra úr símum, sem ekki eru á vegum Sonofon. Það eru því þeir, sem hringja í númerin, sem greiða niður símtölin úr þeim. Stórir viðskiptaaðilar eins og fyrirtæki og stofnanir eiga kost á margvíslegum tilboðum frá símafélögum og Sonofon er með lægstu tilboðin. Sonofon lítur svo á að þeir séu að gera viðskiptavinum sínum mjög lág tilboð og sama sinnis eru mörg fyrirtæki og stofnanir, meðal annars ýmis dönsk bæjarfélög, sem hafa símaáskrift hjá Sonofon. Sonofon gerir viðskiptavinum sínum hins vegar ekki glögga grein fyrir því að það eru í raun þeir sem hringja í þessa viðskiptavini Sonofon, sem greiða niður símtölin fyrir þá. Önnur símafyrirtæki taka um 9 aura fyrir þegar viðskiptavinur þeirra hringir í síma, sem er hjá öðru fyrirtæki. Hjá Sonofon kostar það 25 aura. Kostnaði velt yfir á bæjarbúa

Í viðtali við danska útvarpið sagði starfsmaður Fredericia-bæjarfélagsins á Jótlandi að bæjarfélagið hefði valið Sonofon sökum þess hve fyrirtækið byði lága taxta. Bæjarfélaginu hefði hins vegar ekki verið gerð grein fyrir að það væru í raun bæjarbúar, sem með símtölum sínum til bæjarfélagsins greiddu símakostnað bæjarfélagsins niður. Bæjarfélagið treystir sér þó ekki til að skipta um símafélag, því fjárhagsáætlunin er miðuð við sparnaðinn, sem hlýst af lágum töxtum Sonofon. Það eru því ekki peningar aflögu til að greiða hærri taxta. Bæjarfélagið hefur hins vegar bent íbúunum á þennan kostnað, sem aðeins er hægt að losna við með því að skipta sjálfur við Sonofon. Þannig er bæjarfélagið í raun orðið hin besta auglýsing fyrir Sonofon. Borgað fyrir að fá fyrirtæki í símaáskrift? Þetta verðkerfi getur einnig boðið upp á ýmsa möguleika. Í viðtali við Berlingske Tidende tók Allan Koch, aðstoðarframkvæmdastjóri Sonofon, undir að þetta verðkerfi byði upp á ýmsa möguleika fyrir fyrirtækið. Það væri til dæmis einkar freistandi fyrir Sonofon að leita sérstaklega eftir viðskiptum við fyrirtæki og stofnanir, sem hringja lítið út, en sem mikið er hringt í, til dæmis þjónustufyrirtæki af ýmsu tagi. Koch útilokaði ekki að það gæti einfaldlega borgað sig fyrir Sonofon að greiða slíkum fyrirtækjum fyrir að hafa símaáskrift sína hjá Sonfon. Dönskum símafélögunum er fjálst að verðleggja þjónustu sína að eigin ósk, nema Tele Danmark, sem þarf samþykki ríkisins, því þó það sé nú orðið einkavætt er það langstærsta fyrirtækið á markaðnum.