KVENNAMIÐSTÖÐ var opnuð í Sarajevó í síðasta mánuði en meðal þeirra sem lögðu sitt af mörkum til að miðstöðin yrði að veruleika er dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir sagnfræðingur, sem búsett er í Þýskalandi. Bosníska kvenfélagið BISER í Sarajevo rekur kvennamiðstöðina og verða í húsinu reknir námsflokkar, þar sem m.a.
Kvennamiðstöð í SarajevóKVENNAMIÐSTÖÐ var opnuð í Sarajevó í síðasta mánuði en meðal þeirra sem lögðu sitt af mörkum til að miðstöðin yrði að veruleika er dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir sagnfræðingur, sem búsett er í Þýskalandi.
Bosníska kvenfélagið BISER í Sarajevo rekur kvennamiðstöðina og verða í húsinu reknir námsflokkar, þar sem m.a. verður boðið upp á lestrar- og enskukennslu, en í Bosníu er töluvert um ólæsi á meðal kvenna. Einnig mun heilsugæslu og áfallahjálp verða sinnt í miðstöðinni og konum boðið upp á viðtöl við bæði lækna og sálfræðinga.
Íslenska ríkið og íslensk kvenfélög voru meðal þeirra sem lögðu fram fé til kaupa á húsinu og nauðsynlegra viðgerða á því og var framlag Íslands um tvær milljónir kr. Þá lögðu landstjórnin í Hessen og kvenfélög í Þýskalandi og Sviss einnig sitt af mörkum, en það er Evrópusambandið sem veitir rekstrarfé til starfseminnar.
Kvennamiðstöðin er um 460 fm að stærð. Á jarðhæð eru þrjár skólastofur, viðtalsherbergi og eldhús. Á annarri hæð er síðan stór setustofa, fyrirlestraherbergi, leikstofa og skrifstofa. Ekki hefur enn verið gengið frá þriðju hæðinni vegna fjárskorts, en gert er ráð fyrir að þar verði fundarsalur, kennslustofa og lítið eldhús. Þá er áætlað að bókasafni verði komið fyrir á lofti hússins.
Fjölmenni var við formlega opnun miðstöðvarinnar og var Vilborg þar viðstödd ásamt Snorra Magnússyni lögregluþjóni, sem starfar nú í Sarajevó á vegum utanríkisráðuneytisins. Auk félagskvenna og almennra gesta mættu fulltrúar hessnesku landstjórnarinnar í Wiesbaden og sambandstjórnarinnar í Berlín ásamt sendiherrum erlendra ríkja í Sarajevo.
BISER er með bankareikning í Landsbankanum og geta þeir sem vilja styrkja félagið við að ljúka endurbótum á húsinu lagt inn á reikning nr. 0111-26-2000.
Kvennamiðstöðin í Sarajevó er ætluð fyrir bæði námskeið og áfallahjálp.
Kvenfélagskonur BISER þiggja kaffibolla í kvennamiðstöðinni.