ÓYGGJANDI merki þess að maður er kominn með kvef er stíflað nef og nefrennsli. Þá er gott að grípa til vasaklútsins og snýta sér hraustlega. En nú bendir ýmislegt til þess að það sé ekki að öllu leyti hollt að snýta sér því samkvæmt nýrri rannsókn getur það valdið því að bakteríur og veirur komast í holrúmin eða sínusana í höfðinu.
Ekki til bóta

að snýta sér

Reuters Health

ÓYGGJANDI merki þess að maður er kominn með kvef er stíflað nef og nefrennsli. Þá er gott að grípa til vasaklútsins og snýta sér hraustlega. En nú bendir ýmislegt til þess að það sé ekki að öllu leyti hollt að snýta sér því samkvæmt nýrri rannsókn getur það valdið því að bakteríur og veirur komast í holrúmin eða sínusana í höfðinu. Rannsóknin var kynnt nú í mánuðinum á ráðstefnu í San Francisco í Bandaríkjunum en þar var fjallað um lyf gegn örverum og krabbameini.

Segja rannsakendurnir að æskilegt sé að fólk verði sér sem fyrst úti um lyf til að minnka slímframleiðslu í nefinu þegar það fær kvef. Með því geti það minnkað líkurnar á því að kvefið fari út í sínusana.

Dr. Joseph O. Hendley, sem starfar við Virginiu-háskóla, og samstarfsmenn hans báru þrýstinginn í nefholi fjögurra heilbrigðra einstaklinga í þann mund sem þeir snýttu sér saman við þrýstinginn sem myndast þegar þeir hóstuðu og hnerruðu. Með því vildu þeir sjá hvort þessar aðgerðir þrýstu slími úr nefinu og yfir í sínusana.

Þrýstingur í sínusunum þegar mennirnir hnerruðu eða hóstuðu mældist 6 til 8 mm Hg en tífaldaðist þegar þeir snýttu sér og varð 70­80 mm Hg, að því er Hendley segir.

Snýta sér 45 sinnum á dag

Rannsakendurnir athuguðu einnig vökva með svipað seigjustig og nefslím og komust að raun um að ólíklegt er að slím þrýstist yfir í sínusana við þann þrýsting sem verður við hósta og hnerra. Það reyndist aftur á móti vel mögulegt við þrýstinginn sem verður þegar maður snýtir sér.

Rannsakendurnir sprautuðu einnig sértöku litarefni í nefkok tíu heilbrigðra sjálfboðaliða, sem síðan hóstuðu, hnerruðu eða snýttu sér. Að því loknu voru teknar sneiðmyndir af þeim. Sínusar þeirra þriggja sem hóstuðu voru litarefnislausir og það sama mátti segja um þá þrjá sem hnerruðu. Aftur á móti "fannst litarefni í sínusum allra þeirra fjögurra, sem snýttu sér", segir Hendley.

Aðferðir sem minnka slímframleiðslu í nefinu meðan á kvefi stendur "eru æskilegar", er haft eftir rannsakendunum, "ekki einvörðungu til að draga úr einkennum kvefsins heldur einnig vegna þess að þær gætu komið í veg fyrir að kvefið breiðist út og í sínusana."

Hendley og félagar hans benda á að samkvæmt niðurstöðum annarrar rannsóknar snýtir kvefaður maður sér u.þ.b. 45 sinnum á dag fyrstu þrjá dagana eftir að hann smitast.

Morgunblaðið/Sverrir Rannsakendurnir mæla frekar með því að kvefað fólk noti nefúða sem minnkar nefrennsli en að það snýti sér.