RAGNAR K. Ásmundsson varði doktorsritgerð sína í yfirborðseðlisfræði við Háskólann í Lundi 10. september sl. Ritgerðin ber titilinn "Vibrational Spectroscopy of Surface Adsorbates on Metal Surfaces" og byggist á fjórum greinum sem allar fjalla um innrautt titringsróf smárra sameinda á yfirborði tveggja málma, kopars og wolfram.
FÓLK

Doktor í eðlisfræði

RAGNAR K. Ásmundsson varði doktorsritgerð sína í yfirborðseðlisfræði við Háskólann í Lundi 10. september sl. Ritgerðin ber titilinn "Vibrational Spectroscopy of Surface Adsorbates on Metal Surfaces" og byggist á fjórum greinum sem allar fjalla um innrautt titringsróf smárra sameinda á yfirborði tveggja málma, kopars og wolfram.

Sýnt er fram á hvernig nýta megi hliðrun gleypnitoppa í titringsrófum alkoxíðs til þess að greina samhverfu alkoxíð-sameindanna á vel skilgreindu málmyfirborði. Hliðrunin var fengin með því að skipta út kol-12 með kol-13 frumeindasamsætum, sem leyfir nákvæma greiningu á mældum titringsrófum svo framarlega sem nægilegri litrófsupplausn er beitt. Ab initio rafeindareikningum var beitt til þess að líkja eftir mæliniðurstöðum, en þó með talsverðum einföldunum. Til viðbótar voru Fermi-hermur í metoxíðlaginu rannsakaðar og líkt eftir í einföldu reiknilíkani.

Leiðbeinandi Ragnars var dr. Per Uvdal, dósent við Lundarháskóla, en andmælandi við vörnina var dr. Cynthia M. Friend, prófessor við Harvard-háskóla í Cambridge, Massachusetts, Bandaríkjunum.

Ragnar K. Ásmundsson fæddist á Akureyri 31. mars 1970, sonur hjónanna Ásmundar Jónssonar menntaskólakennara og Ragnheiðar Kjærnested bókasafns- og upplýsingafræðings. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1990 og BS-prófi í tæknilegri eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Hann hóf framhaldsnám við Chalmers-háskólann í Gautaborg árið 1994 og síðan við Háskólann í Lundi ári síðar og er þar enn við rannsóknarstörf. Eiginkona Ragnars er Guðrún Rósa Þórsteindóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur, doktorsnemi við Háskólann í Borås og eiga þau einn son, Ásmund Smára.