Við gefum þér
GSM- síma og 100.000 kr. í afmælisgjöf!
Til hamingju með 17 ára afmælið! Við gefum þér GSM-síma og 100.000 kr. í afmælisgjöf. Eitthvað á þessa leið hljómar "gjafatilboð" sem Elín Sigrún Jónsdóttir segir að sé til þess eins að glepja óharðaða neytendur.
ÞAÐ er bifreiðaumboðið B&L hf. sem sendir 17 ára unglingum í landinu umrædd skilaboð um þessar mundir. Við nánari skoðun kemur í ljós að í "gjafatilboðinu" felst að 100.000 kr. skoðast sem innborgun á notaðan bíl hjá umboðinu. En bíllinn þarf að kosta a.m.k. 600.000 kr. Þá fylgir tilboðinu einnig GSM- sími og GSM-frelsi með 2.000 kr. inneign. Við markaðsetningu sem þessa vakna ýmsar spruningar.
Fyrsta tilfinningin er í raun óhugur. Hvað kemur næst? Hvar eru mörkin? Eru kannski engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að glepja neytendur, jafnt óharðnaða ófjárráða unglinga sem og fullorðið fólk? Er neytendavernd engin í þessu landi? Aðferðafræðin hlýtur að kalla á viðbrögð foreldra og stjórnvalda. Eða er þetta kanski bara allt í lagi? Er þetta kannski tilboð sem ekki er hægt að hafna?
Fjármögnun
Hvernig á 17 ára ófjárráða unglingur í menntaskóla að fjármagna 500.000 kr. greiðslu? Sölumenn bifreiðaumboðsins segja það "ekkert vandamál að forráðamenn taki bílalán fyrir mismuninum". En það er ekki bara það að borga af bílaláni 1720.000 kr. á mánuði, það þarf að reka bílinn og tryggja hann. Samkvæmt tölulegum upplýsingum FÍB má ætla að rekstrarkostnaður þessarar bifreiðar sé um 50.000 kr. á mánuði.
Hver eru þessi skilaboð?
Þau eru: Þú, ungi, óharðnaði neytandi, njóttu nú, taktu bara lán, mamma og pabbi ábyrgjast það fyrir þig. Þú nýtur nú og hefur ekki áhyggjur af afborgunum fyrr en síðar.
84 eftirvinnustundir á mánuði
En hvernig er hægt að meta þennan kostnað í vinnustundum 17 ára menntaskólafólks? Ljóst er að fjölmargir stórmarkaðir eru reknir á vinnuafli skólafólks á kvöldin og um helgar. Nærtækt er því að meta kostnað út frá greiddu tímakaupi stórmarkaða. Hvað eru margar vinnustundir að baki reksturs bifreiðar á mánuði?
Algeng laun í dagvinnu eru 380,00 kr. á klst. Og um 600 kr. í eftirvinnu. Það þýðir að til að greiða 50.000 kr. á mánuði þarf að vinna um 84 eftirvinnuklst. í mánuði. Það gerir 21 klst. á viku sem er rúmlega 50% fullrar vinnu.
Viðbrögð við auglýsingunni?
Skv. uppl. sölumanns hefur þetta verið "nokkuð vinsælt". "Fólk sér hvað þetta er gott tilboð."
Unglingar!
Látið ekki fara illa með ykkur.
Verið ekki auðveld bráð markaðsaflanna.
Reiknið sjálf dæmið til enda.
Það er ekki heppilegt að hefja framhaldsnám með þriggja ára skuldasúpu á bakinu.
Hvers virði er bíll?
Hvers virði eru hin raunverulegu lífsgæði?
Höfundur er forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og skrifar reglulega pistla á neytendasíðu