Félagsstarfið blómstrar í Jónshúsi eins og Sigrún Davíðsdóttirheyrði er hún ræddi við Jón Runólfsson, nýskipaðan umsjónarmann hússins.
Ramminn um blómlegt félagsstarf Íslendinga í Höfn Félagsstarfið blómstrar í Jónshúsi eins og Sigrún Davíðsdóttir heyrði er hún ræddi við Jón Runólfsson, nýskipaðan umsjónarmann hússins.

"ÞAÐ kom mér gleðilega á óvart að sjá hve það er mikið félagslíf hér í Jónshúsi," segir Jón Runólfsson, en hann tók við í haust sem umsjónarmaður Jónshúss á Østervoldgade 12 í Kaupmannahöfn. Karl Sæmundsen kaupmaður gaf Alþingi húsið á sínum tíma og það er því Alþingi sem fer með stjórn þess.

Jón segir það hlutverk sitt að hafa umsjón með eignum Alþingis og með fræðimannsíbúðinni í Sankti Pálsgötu, "og ég hef mikinn áhuga á að styðja við félagsstarfsemina í húsinu og efla hana. Ef ég gæti stuðlað að meira lífi í húsinu væri það gott hlutverk." Félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn Hér áður fyrr var reynt að reka Jónshús sem kaffi- og samkomuhús, þar sem seldar voru veitingar. Undanfarið hefur ekki verið grundvöllur til þess og um leið verið óljóst hvernig best væri að haga rekstri hússins. Á þessu umbrotaskeiði í sögu hússins spruttu auk þess upp háværar deilur, en nú er smám saman að komast ný mynd á rekstur hússins. Eins og er stefnir húsið í að vera það sem Jón kallar félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn "og það gegnir ekki síður mikilvægu hlutverki en félagsheimili í sveitarfélögum á Íslandi, góð félagsheimili heima hýsa gjarnan hvers konar menningarstarfsemi, bókasafn og jafnvel annars konar söfn eins og Jónshús," bendir hann á og segist þess fullviss að húsið sé meira notað en almennt gerist um félagsheimili í byggðum af sambærilegri stærð heima fyrir. Jón leggur jafnframt áherslu á að bæði hann og hússtjórnin séu opin fyrir nýjum hugmyndum og hvetur því alla, sem luma á hugmyndum um starfsemi í húsinu að hafa samband. Sjálfur hefur Jón lengi haft áhuga á húsinu. Hann lærði innanhúshönnun og byggingartækni í Danmörku á sínum tíma, hefur búið þar tvívegis og þá komið að starfseminni í Jónshúsi. Hann hefur unnið ráðgjafarstörf á sínu sviði, einkum við hönnun og rekstur íþróttamannvirkja og var formaður Íþróttabandalags Akraness, þar sem hann bjó. "Það var kominn tími til að breyta til," segir Jón um aðdraganda þess að hann sótti um húsið, "börnin farin að heiman og við hjónin gátum mjög vel hugsað okkur að búa aftur í Danmörku um hríð." Mikill áhuga á Jónshúsi "Það er athyglisvert hve margir sýna húsinu áhuga," segir Jón og bætir því við að þó hann sé aðeins búinn að vera þar skamma hríð hafi hann þegar fundið þennan áhuga. Auk þess sem hússtjórnin er áhugasöm um viðgang hússins segist Jón finna mikinn áhuga meðal Íslendinga, ekki aðeins þeirra sem búsettir eru í Höfn heldur einnig meðal landa sem eiga leið um. Eins og er er húsið opið á þriðjudögum kl. 16­20, á laugardögum kl. 15­18 og á sunnudögum kl. 15­17. Á laugardögum hafa menn meðal annars komið saman til að horfa á enska fótboltann, en annars liggja íslensku blöðin frammi og hægt er að fá kaffi. Á fyrstu hæð hússins er samkomusalur með góðu eldhúsi, en þar er einnig lítið fundarherbergi og skrifstofa umsjónarmanns hússins. Á annarri hæð er bókasafnið, sem gegnir miklu hlutverki fyrir Íslendinga búsetta í Höfn. Það er opið á þriðjudögum kl. 18­20 og á sunnudögum kl. 15­17. Jón minnir á að bókagjafir séu vel þegnar, svo þeir sem vilja losa sig við íslenskar bækur vita hvar þær koma að notum. Á þessari hæð er einnig skrifstofa Stúdentafélagsins og Íslendingafélagsins. Á þriðju hæð eru minningarstofur um Jón Sigurðsson og þær segist Jón hafa ánægju af að sýna. "Það hefur komið mér á óvart hve margir koma hér við til að skoða stofurnar," bætir hann við. Þeir sem áhuga hafa á að koma utan opnunartíma geta haft samband við hann. Þar eru líka skrifstofa safnaðarins og sr. Birgis Ásgeirssonar. Á fjórðu hæð er svo íbúð umsjónarmanns. Fræðimenn í fræðimannsíbúðinni í Sankti Pálsgötu eiga möguleika á starfsaðstöðu í húsinu. Almennt segir Jón húsið vera í góðu ásigkomulagi. Samkomusalurinn var málaður í sumar, gólfin slípuð og lökkuð og þar eru komin ný, íslensk húsgögn. Þá standa fyrir dyrum talsverðar viðhaldsaðgerðir utanhúss.

Góður grundvöllur fyrir gott starf "Það er einmitt spennandi við Jónshús að húsið skuli vera í Höfn, því það eiga svo margir Íslendingar leið hér um," bendir Jón á. Félögin í húsinu reyna af fremsta megni að fá listamenn og aðra sem eiga leið um borgina og hafa eitthvað fram að færa til að koma fram. "Og þá er kostur að hafa húsnæðið fyrir hendi því það er einmitt oft á því sem samkomuhald meðal Íslendinga annars staðar strandar," segir Jón. Í húsinu starfar íslenskur skóli, kvennakór og kirkjukór æfa þar og halda uppi félagsstarfsemi. Kvennakórinn og söfnuðurinn hafa skipst á að vera með kaffi á sunnudögum og það hefur verið vel sótt. Það er því engin deyfð yfir húsinu og mikill áhugi að nýta þetta góða hús til góðra starfa. Jónshús, Østervoldgade 12, sími + 45 3313 79 97. Umsjónarmaður er við alla virka morgna nema mánudagsmorgna kl. 8­9 og á þriðjudögum kl. 16­20. Netfangið er: jonshus þ mail.tele.dk Jónshús.