TOM Hanks er í miklum metum í Hollywood bæði vegna persónuleika síns og leikhæfileika, að því er fram kemur í ævisögu leikarans margverðlaunaða sem skrifuð er af David Gardner. "Hann er algjör elska - líklega einn af viðkunnanlegustu manneskjum sem maður kemst í tæri við í þessum iðnaði,
Ævisaga Hanks væntanleg Fannst Clinton bregðast sér

TOM Hanks er í miklum metum í Hollywood bæði vegna persónuleika síns og leikhæfileika, að því er fram kemur í ævisögu leikarans margverðlaunaða sem skrifuð er af David Gardner. "Hann er algjör elska - líklega einn af viðkunnanlegustu manneskjum sem maður kemst í tæri við í þessum iðnaði," segir útgefandinn John Blake á stærstu bókastefnu í heimi sem fram fer í Frankfurt þessa dagana en þar er gengið frá 80% af útgáfusamningum á heimsvísu.

"Hann kemur fyrir sjónir sem afar viðfelldinn maður," segir Blake um Hanks sem vann Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki tvö ár í röð, árið 1993 fyrir Fíladelfíu og 1994 fyrir Forrest Gump . Þá var hann tilnefndur fyrir frammistöðu sína í Björgun óbreytts Ryans . Ævisagan verður gefin út í Bretlandi í næsta mánuði og í Bandaríkjunum á næsta ári. "Japanir vilja kaupa hana, Austur-Evrópa er mjög áhugasöm. Við munum á endanum selja bókina í hverju einasta landi í heiminum," sagði Blake í samtali við Reuters.

Hanks var góður vinur Díönu prinsessu, sem tók ötulan þátt í baráttunni gegn alnæmi eftir að hún horfði á myndina Fíladelfíu. Hann gaf fjármuni í forsetabaráttu Bills Clintons en varð fyrir miklum vonbrigðum þegar kynlífshneykslið vegna Monicu Lewinsky varð opinbert. "Þeir rifust og síðan hefur verið stirt á milli þeirra. Ég held að honum hafi fundist Clinton bregðast sér," sagði Blake.

"Hann [Hanks] hefur aðeins sofið með sex konum á ævi sinni. Það er forvitnileg staðreynd - og hann er tvígiftur. Þegar maður er í aðstöðu eins og hann til að hrífa konur er þetta mjög óvenjulegt." Hann bætti við að lokum: "Ég held að þegar fram líða stundir verði hann álitinn stórfenglegur leikari."

Ferillinn reis hæst í myndinni Forrest Gump árið 1994 þegar lífið varð algjört konfekt fyrir Tom Hanks.