Á MORGUN, sunnudag 17. október, verður árlegur kirkjudagur safnaðarins og hefst hann með barnasamkomu í kirkjunni kl. 11 en umsjón með barnastarfinu hafa þau Sigríður Kristín Helgadótir, Örn Arnarson og Edda Möller. Guðsþjónusta verður síðan að venju kl. 14 og mun kirkjukórinn leiða söng undir stjórn Þóru V.
Safnaðarstarf

Kirkjudagur Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði

Á MORGUN, sunnudag 17. október, verður árlegur kirkjudagur safnaðarins og hefst hann með barnasamkomu í kirkjunni kl. 11 en umsjón með barnastarfinu hafa þau Sigríður Kristín Helgadótir, Örn Arnarson og Edda Möller.

Guðsþjónusta verður síðan að venju kl. 14 og mun kirkjukórinn leiða söng undir stjórn Þóru V. Guðmundsdóttur, organista, og eldri deild barnakórs kirkjunnar mun einnig flytja nokkur haustlög í guðsþjónustunni. Stjórnandi barnakóra kirkjunnar er Sigríður Ása Sigurðardóttir.

Að lokinni guðsþjónustu hefst síðan hin árlega kaffisala kvenfélags Fríkirkjunnar í Hafnarfirði og fer hún fram á báðum hæðum safnaðarheimilisins á Linnetsstíg 6 en það er næsta hús fyrir neðan kirkjuna.

Allur ágóði af kaffisölunni fer að sjálfsögðu til kirkjustarfsins. Er það von okkar að safnaðarfólk og aðrir gestir fjölmenni til kirkjunnar á kirkjudegi.

Einar Eyjólfsson fríkirkjuprestur.

Saga kvenna- baráttunnar í Kvennakirkjunni

Kvennakirkjan heldur guðþjónustu í Grensáskirkju sunnudaginn 17. október kl. 20.30. Fjallað verður um sögu kvennabaráttu þessarar aldar á leikrænan hátt. Sóley Stefánsdóttir guðfræðinemi prédikar. Margrét Eir Hjartardóttir syngur einsöng. Kór Kvennakirkjunnar leiðir almennan safnaðarsöng og Aðalheiður Þorsteinsdóttir leikur á píanó.

Nýlega hélt Kvennakirkjan ráðstefnu um stöðu kvennabaráttunnar og er umfjöllunin í messunni í beinu framhaldi af því. Einnig var ákveðið að halda umræðunni áfram á mánudögum í stofu Kvennakirkjunnar, Þingholtsstræti 17.

Mánudaginn 18. október kl. 17.30 koma tvær konur sem sátu ráðstefnuna Konur og lýðræði og segja frá, þær Hjördís Hákonardóttir lögfræðingur og dr. Arnfríður Guðmundsdóttir guðfræðingur. Allir eru velkomnir.

Taize-söngvar og gestaprestar í Landakirkju

Bænasöngvar kendir við Taize- þorpið í Frakklandi verða áberandi við bænar- og kyrrðarstundir Landakirkju í vetur. Fyrsta stundin verður fimmtudaginn 14. október og þar verður héraðspresturinn, sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, til að leiða stundina, en hún hefur kynnt sér taize-hefðina sérstaklega.

Stundin hefst kl. 18 og er gert ráð fyrir að hún standi í 20-25 mínútur. Fyrirbænaefnum má koma til prestanna eftir ýmsum leiðum fyrir stundina eða bera bænirnar upp við altarið.

Erlendur prestur, sr. John Stabb, kemur í heimsókn frá Bandaríkjunum og verður með prestum Landakirkju í starfi dagana 14. til 17. október. Hann er hingað kominn til að kynna sér daglegt starf presta á nokkrum stöðum á Íslandi í ljósi Porvoo-samþykktarinnar, sem er samstarfssamningur milli lúterskrar kirkju og ensku biskupakirkjunnar.

Prestar Landakirkju.

Létt sveifla - kvöldmessa í Neskirkju

Kvöldmessa með léttri sveiflu verður í Neskirkju sunnudagskvöldið 17. október kl. 20. Reynir Jónasson, harmonikkuleikari og organisti, sér um tónlistarflutning ásamt hljómsveit og sönghópnum Einkavinavæðingu. Hljómsveitina skipa Edwin Kaabewr, sem leikur á gítar, Ómar Axelsson á bassa, Sveinn ÓLi Jónsson á trommur en sjálfur mun Reynir leika á harmonikku. Hálftíma fyrir messu flytur hljómsveitin tónlist í kirkjunni. Að messu lokinni verður fundur með foreldrum fermingarbarna í safnaðarheimilinu. Prestur er sr. Örn Bárður Jónsson.

Sama dag kl. 14 er hefðbundin guðsþjónusta safnaðarins sem sr. Frank M. Halldórsson annast.

Sunnudagaskólinn er nú kominn vel í gang. Fjöldi barna og foreldra kemur til kirkju kl. 11 á sunnudögum. Starfinu er skipt í tvo hópa. Yngri börnin eru í kirkjunni en 8-9 ára börn í safnaðarheimilinu. Notað er mjög vandað fræðsluefni. Börnin fá veggspjald og myndir til að líma á spjaldið. Fjallað er um kristna trú í landinu í þúsund ár. Óhætt er að fullyrða að bæn og trúariðkun er eitt besta veganesti sem börn fá fyrir lífsgönguna. Stuðlum að því að börnin fari ekki á mis við að kynnast þeirri lífæð sem trúin er.Neskirkja. Félagsstarf aldraðra í dag kl. 13. Ferð. Loftskeytastöðin við Suðurgötu heimsótt og fjarskiptasafn Landssímans skoðað. Kaffiveitingar í safnaðarheimili. Allir velkomnir. Sr. Frank M. Halldórsson.

Hjálpræðisherinn. Kl. 13 laugardagsskóli fyrir krakka.

Hvammstangakirkja. Sunnudagaskóli kl. 11.

Akraneskirkja. Kirkjuskóli kl. 11. TTT-starf (10-12 ára) kl. 13. Stjórnandi Elín Jóhannsdóttir. Unglingakórinn: Æfing í safnaðarheimilinu Vinaminni kl. 14. Stjórnandi Hannes Baldursson.

KEFAS, Dalvegi 24. Laugardagur: Samkoma kl. 14, ræðumaður Sigrún Einarsdóttir. Allir hjartanlega velkomnir. Þri: Bænastund kl. 20.30. Mið: Samverustund unglinga kl. 20.30. Allir hjartanlega velkomnir.