YFIRMAÐUR hersveita Rússa í Norður-Kákasus-héruðunum sagði í gær að hermenn hans hefðu lokið við að setja upp öryggisbelti umhverfis Tsjetsjníu. Herinn myndi nú ráðast til nýrrar atlögu gegn uppreisnarmönnum í sjálfsstjórnarlýðveldinu og uppræta þá með öllu.
Rússar ljúka við að koma upp "öryggisbelti" í Tsjetsjníu

Næst á dagskrá að uppræta uppreisnarmenn

Moskvu. Reuters.

YFIRMAÐUR hersveita Rússa í Norður-Kákasus-héruðunum sagði í gær að hermenn hans hefðu lokið við að setja upp öryggisbelti umhverfis Tsjetsjníu. Herinn myndi nú ráðast til nýrrar atlögu gegn uppreisnarmönnum í sjálfsstjórnarlýðveldinu og uppræta þá með öllu.

"Markmið fyrsta áfanga aðgerða gegn hryðjuverkamönnum á landsvæði tsjetsjenska lýðveldisins um að koma upp öryggisbelti hefur verið uppfyllt," sagði Viktor Kazantsev í sjónvarpsviðtali frá vettvangi. Hann sagði rússnesku hersveitirnar, sem nú halda um þriðjungi Tsjetsjníu á valdi sínu, myndu nú hefjast handa við næsta áfanga aðgerðanna.

"Uppreisnarmennirnir verða að búast við okkur hvar sem er, hvenær sem er og þeir munu stöðugt þurfa að þola að við höggvum skörð í raðir þeirra," sagði Kazantsev.

Ekki var ljóst hvort þessi nýi áfangi hernaðaraðgerðanna í Tsjetsjníu fæli í sér nýja sókn landhers inn á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Mið- og Suður-Tsjetsjníu, eða hvort um yrði að ræða fleiri smærri aðgerðir og þyngri loftárásir, sem standa yfir nú þegar.

Stjórnvöld í Moskvu segja sókn land- og flughersins í Tsjetsjníu miða að því að uppræta uppreisnarmenn múslima, sem auk uppreisnar er gefið að sök að bera ábyrgð á sprengitilræðum í rússneskum borgum, sem kostað hafa fjölda óbreyttra borgara lífið.

Vjatsjeslav Ochinnikov, yfirmaður hersveita rússneska innanríkisráðuneytisins, sagðist í gær ekki sjá neina þörf á því að Rússar freistuðu þess að hernema Grosní í bráð. "Ég býst við að einhver heilbrigð öfl komi fram og taki málin í sínar hendur þannig að hægt verði að semja um lausn vandans án frekari blóðsúthellinga," sagði Ochinnikov.

Flóttamenn frá Tsjetsjníu eru nú taldir vera orðnir yfir 150.000, sem flestir hafast við í bráðabirgðabúðum í Ingúshetíu, héraðinu vestan við Tsjetsjníu.

Þjóðverjar þrýsta á Rússa að binda enda á hernaðinn

Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýzkalands, ítrekaði í gær áskorun á stjórnvöld í Kreml að binda enda á hernaðinn í Tsjetsjníu og leita frekar friðsamlegrar lausnar á vandanum. "Við fylgjumst áhyggjufullir með atburðum í Tsjetsjníu," tjáði Fischer fréttamönnum í Pétursborg eftir viðræður við rússneska utanríkisráðherrann Ígor Sergejev. "Við óttumst að stórsókn landhers og loftárásir geti leitt til mikils harmleiks fyrir óbreytta borgara og hindra jafnframt varanlega lausn vandans og jafnvel auka stuðning við öfgamenn múslima," sagði Fischer.