HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra greindi frá því á Alþingi í fyrradag að á vegum utanríkisráðuneytisins væri nú verið að vinna að stöðuskýrslu um þróun samrunaferlisins í Evrópu. Að sögn utanríkisráðherra er stefnt að því að skýrslan verði tilbúin á fyrri hluta næsta árs. Evrópumál hafa ekki sett sterkan svip á stjórnmálaumræðuna hér á landi síðustu misseri.
BREYTINGAR Í EVRÓPU

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra greindi frá því á Alþingi í fyrradag að á vegum utanríkisráðuneytisins væri nú verið að vinna að stöðuskýrslu um þróun samrunaferlisins í Evrópu. Að sögn utanríkisráðherra er stefnt að því að skýrslan verði tilbúin á fyrri hluta næsta árs.

Evrópumál hafa ekki sett sterkan svip á stjórnmálaumræðuna hér á landi síðustu misseri. Fyrir því eru ýmsar ástæður en ekki síst sú staðreynd að engin knýjandi þörf hefur verið fyrir Íslendinga að taka afstöðu til þess hvort aðild að Evrópusambandinu hentaði hagsmunum okkar.

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið náðu Íslendingar að tryggja mikilvægustu hagsmuni sína í samskiptum við Evrópusambandið, þar á meðal óheftan aðgang sjávarafurða á markaði í Evrópu. EES-samningurinn hefur raunar haft jákvæð áhrif á langtum breiðara sviði. Á vettvangi menntamála, menningar og vísinda hefur Evrópusamstarfið reynst Íslendingum farsælt. Þrátt fyrir að við höfum ítrekað orðið að taka upp nýja löggjöf eða breyta ríkjandi lögum til að laga okkur að þróuninni í Evrópu hefur það enn ekki leitt til alvarlegra pólitískra árekstra. EES-ferlið hefur í stórum dráttum reynst vel.

Þróunin innan Evrópusambandsins heldur hins vegar stöðugt áfram og því er nauðsynlegt að Íslendingar fylgist vel með því sem þar á sér stað og taki afstöðu til þess á hverjum tíma hvernig hagsmunum þjóðarinnar er best borgið. Þar ber ekkert að útiloka en jafnframt ekki að ganga út frá því sem vísu að einhver ákveðin þróun sé óumflýjanleg.

Í grófum dráttum má segja að fernt muni á næstu árum hafa rík áhrif á hagsmuni Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

Þar ber fyrst að nefna evruna, hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins, sem tekin var upp í byrjun þessa árs. Þótt evran verði ekki að almennum greiðslumiðli í Evrópu fyrr en árið 2002 hefur hún nú þegar mikil áhrif á viðskipti í álfunni. Þau áhrif endurspeglast hér á landi enda er vægi gjaldmiðla ESB í íslensku gengiskörfunni um 60%. Ellefu ríki ESB hafa þegar gerst aðilar að hinni sameiginlegu peningamálastefnu og búast má við að fleiri fylgi í kjölfarið, en Bretar, Danir, Svíar og Grikkir standa nú utan evru-samstarfsins. Nýlega greindi danski Jafnaðarmannaflokkurinn frá því að hann hygðist berjast fyrir upptöku evrunnar og harðar deilur eiga sér stað um málið í Svíþjóð og Bretlandi. Ekki er hægt að útiloka að innan fárra ára hafi öll ríki ESB tekið upp evruna sem gjaldmiðil. Hinn sameiginlegi gjaldmiðill hefur vakið mikla umræðu hér á landi og færa má rök fyrir því að ekkert annað mál sé jafnlíklegt til að breyta afstöðu Íslendinga til ESB-aðildar.

Breytingar á sviði varnarmála í Evrópu gætu hins vegar einnig haft veruleg áhrif á Íslendinga. Verði Vestur-Evrópusambandið formlega innlimað í ESB og gert að eins konar Evrópustoð NATO-samstarfsins vakna spurningar um stöðu NATO-ríkja utan ESB á borð við Ísland.

Í þriðja lagi ber að nefna þá umfangsmiklu stækkun Evrópusambandsins, sem nú stendur fyrir dyrum. Á síðasta ári var ákveðið að hefja viðræður við sex ríki, Eistland, Tékkland, Pólland, Slóveníu, Ungverjaland og Kýpur. Fyrr í vikunni greindi framkvæmdastjórn ESB frá því að hún hygðist mæla með því við ráðherraráðið að viðræður yrðu teknar upp við sex ríki til viðbótar, Lettland, Litháen, Búlgaríu, Rúmeníu, Slóvakíu og Möltu. Enn er óljóst hver verða afdrif aðildarumsóknar Tyrkja en það mun væntanlega skýrast á leiðtogafundi ESB í Finnlandi í desember. Aðildarviðræður þessar munu taka mörg ár og leysa verður úr flóknum vandamálum áður en af aðild flestra þessara ríkja verður. Flest bendir hins vegar til að innan áratugar muni aðildarríki ESB verða hátt í þrjátíu. Einu Vestur- og Mið-Evrópuríkin sem ekki eiga nú þegar aðild eða stefna á aðild eru Ísland, Noregur og Sviss og í síðastnefndu tveimur ríkjunum eiga sér stað töluverðar umræður um þessi mál. Þetta hlýtur að vera Íslendingum umhugsunarefni.

Loks má nefna að töluverð breyting hefur átt sér stað á hinni pólitísku umræðu innan Evrópusambandsins. Þær raddir heyrast vart lengur að stefna beri að miðstýrðum Bandaríkjum Evrópu líkt og mikið var til umræðu á síðasta áratug. Hin evrópska umræða einkennist í auknum mæli af raunsæi og skilningi á því að bandalag allt að 28 ríkja geti ekki byggst á einsleitni og miðstýringu heldur sveigjanleika og fjölbreytni.

Í þeim málaflokki sem skiptir Íslendinga mestu máli, sjávarútvegsmálum, hefur hins vegar engin breyting átt sér stað og hin sameiginlega sjávarútvegsstefna er jafn óaðgengileg fyrir okkur og hún var fyrir sjö árum er EES-málin voru til umræðu. Það breytir hins vegar ekki því að við verðum að fylgjast grannt með þróuninni í Evrópu. Stöðumatsskýrsla utanríkisráðuneytisins getur orðið grunnur að upplýstum umræðum um framtíð Íslands í Evrópu við upphaf næstu aldar.