HEILDARMYND stóra fíkniefnamálsins, sem er til rannsóknar hjá lögreglu, hefur verið að skýrast að undanförnu. Hefur rannsóknin leitt í ljós hvernig staðið var að innflutningi fíkniefnanna og hverjir eru viðriðnir málið. Í málinu liggja fyrir játningar meðal gæsluvarðhaldsfanga á því að hafa flutt inn nokkurt magn fíkniefna og eru tengsl þeirra við fíkniefnin einnig fyrir hendi.
Heildarmynd stóra fíkniefnamálsins er óðum að skýrast

Játningar liggja fyrir

HEILDARMYND stóra fíkniefnamálsins, sem er til rannsóknar hjá lögreglu, hefur verið að skýrast að undanförnu. Hefur rannsóknin leitt í ljós hvernig staðið var að innflutningi fíkniefnanna og hverjir eru viðriðnir málið. Í málinu liggja fyrir játningar meðal gæsluvarðhaldsfanga á því að hafa flutt inn nokkurt magn fíkniefna og eru tengsl þeirra við fíkniefnin einnig fyrir hendi.

Lögreglan hefur upplýst Morgunblaðið um að málið hafi verið til rannsóknar hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík frá því í maí síðastliðnum og heldur rannsóknin áfram enda er henni hvergi nærri lokið. Hún hefur m.a. beinst að þekktum aðilum úr fíkniefnaheiminum, skipulagningu ætlaðra brota og fleiru sem varðar aðila sem hafa tengst innflutningi og dreifingu efnanna hér á landi.

Á annað hundrað kg af fíkniefnum með smyglleiðinni

Samkvæmt upplýsingum lögreglu hefur rannsókn málsins leitt í ljós að mikið af fíkniefnum hefur komið með smyglleiðinni sem upprætt var snemma í september. Er talið að smyglleiðin hafi verið opin í um eitt ár og bendir ýmislegt til þess að á þeim tíma kunni að hafa verið flutt inn á annað hundrað kg af ýmiss konar fíkniefnum.

Beinist rannsóknin m.a. að því að kanna þátt sumra gæsluvarðhaldsfanganna á sjálfum innflutningi efnanna og hvaða þátt aðrir fanganna eiga í dreifingu þeirra hérlendis og hvaða þátt enn aðrir fanganna eiga í fjármögnun efnanna.

Hafa starfsmenn fíkniefnadeildar lögreglunnar lagt nótt við dag undanfarnar vikur við að upplýsa málið, en þess ber að geta að fleiri mál eru til rannsóknar hjá deildinni sem einnig þarf að sinna.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar er hins vegar ljóst að stóra fíkniefnamálið hefur reynt verulega á fjárhag lögreglustjóraembættisins, en ekki virðist að jafnaði vera gert ráð fyrir svo umfangsmiklum rannsóknum sem þessari.

Sem dæmi um hversu tímafrek rannsókn málsins er má nefna að ferðir með sakborninga og ferðir rannsóknaraðila austur á Litla- Hraun, þar sem sakborningar sitja í gæsluvarðhaldi, eru orðnar um 50 talsins, en í hverri ferð eru eknir um 100 km sem tekur a.m.k. 2-3 klukkustundir að öllu meðtöldu. Þá hefur talsverður tími farið í að laga vinnubrögð lögreglunnar að nýju lagaumhverfi, sem rakið er til nýrra ákvæða í lögum um meðferð opinberra mála.

Umtalsverðum árangri náð í baráttunni gegn fíkniefnum

Lögreglan metur stöðuna í málinu svo, að umtalsverður árangur hafi náðst í baráttunni gegn fíkniefnum, en hann felst ekki síst í því að tekist hefur að loka fyrir nokkuð örugga innflutningsleið fíkniefna til landsins. Þá hefur tekist að handtaka þá sem tengjast innflutningnum og þá er virðast hafa fjármagnað kaupin á efnunum.

Lögreglan telur að á næstunni þurfi að huga vel að skipulagi fíkniefnamarkaðarins hér á landi og fylgjast gaumgæfilega með þróun hans með tilliti til breyttra aðstæðna. Til þess að svo geti orðið þurfi góð aðstaða og nýir möguleikar til slíks að vera til staðar hjá þeim, sem falið er að sinna því.