Danski markvörðurinn Peter Schmeichel, fyrrum leikmaður með Manchester United, segir að Alex Ferguson eigi að einblína á einn markvörð og treysta honum í stað þess að vera sífellt að skipta. Félagið hefur notað fjóra markverði sem af er tímabili og ekki virðist á hreinu hver sé aðalmarkvörður liðsins.
KNATTSPYRNA Schmeichel segir að Man. Utd. eigi að einblína á einn markvörð
Mikilvægt að markvörður
eigi að eiga fast sæti
Danski markvörðurinn Peter Schmeichel, fyrrum leikmaður með Manchester United, segir að Alex Ferguson eigi að einblína á einn markvörð og treysta honum í stað þess að vera sífellt að skipta. Félagið hefur notað fjóra markverði sem af er tímabili og ekki virðist á hreinu hver sé aðalmarkvörður liðsins.
"Ég tel mikilvægt að markvörður eigi að eiga fast sæti í liði sínu, hvort sem það gangi illa hjá honum eða ekki. Eina leiðin til að markvörður öðlist sjálfstraust er að treysta honum fyrir hlutverki sínu," sagði Schmeichel í samtali við enska blaðið Mirror í gær. "Ef markvörður er inn og út úr liði sínu, eins og hefur orðið reyndin hjá mörgum félögum, eins og t.d. Newcastle, er ekki hægt að byggja upp þann persónuleika sem markvörður þarf að hafa. Alex Ferguson lét mig halda stöðunni sama hvað á gekk. Þannig öðlaðist ég sjálfstraust," sagði danski leikmaðurinn.
Vörn United hefur ekki verið eins sannfærandi í síðustu leikjum og undanfarin ár og liðið hefur fengið mörg ódýr mörk á sig. Félagið hefur notað fjóra markverði síðan í ágúst. Ástralinn Mark Bosnich, sem kom frá Aston Villa sem eftirmaður Schmeichels, hefur átt í meiðslum. Hollendingurinn Raimond Van der Gouw kom í liðið í staðinn og lék m.a. með liðinu í Evrópukeppninni. Ítalinn Massimo Taibi var keyptur frá Venezia og hefur ekki staðið sig vel og verið hart gagnrýndur af enskum fjölmiðlum fyrir mistök sín í síðustu leikjum. Loks hefur unglingalandsliðsmaðurinn Nick Culkin leikið í nokkrar mínútur með liðinu á tímabilinu.
Reuters Peter Schmeichel, hinn sigursæli markvörður Man. Utd.