"MÉR sýnist að málefni skóla, svo og fjármál sveitarfélaganna verði þau mál sem verða efst á baugi á þessum aðalfundi," sagi Ellert Eiríksson bæjarstjóri Reykjanesbæjar við upphaf tuttugasta og annars aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hófst í Reykjanesbæ í gær.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Reykjanesbæ

Skólamál og fjármál efst á baugi Keflavík. Morgunblaðið.

"MÉR sýnist að málefni skóla, svo og fjármál sveitarfélaganna verði þau mál sem verða efst á baugi á þessum aðalfundi," sagi Ellert Eiríksson bæjarstjóri Reykjanesbæjar við upphaf tuttugasta og annars aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hófst í Reykjanesbæ í gær. Ellert Eiríksson sagði að ný lög um auknar kröfur í skólamálum kölluðu á aukin útgjöld sveitarfélaga sem þau yrðu síðan að finna lausn á og þessi mál yrðu vafalítið í brennideplinum að þessu sinni. Við upphaf fundarins sagði Skúli Þ. Skúlason formaður stjórnar SSS frá því sem efst hefði verið á baugi á síðasta ári og að stjórnin hefði fjallað um 174 mál. Meðal þess efnis sem kom á borð stjórnarinnar var vargfugl á svæðinu og sagði Skúli að sílamávur hefði bæði verið sveitarfélögum og íbúum til óþæginda. Fuglinn hefði hafið varp við Faxaflóa um 1950. Í talningu sem gerð hefði verið 1990-92 frá Grindavík, vestur fyrir og að Akranesi hefði stofninn verið áætlaður 80.000 til 110.000 fuglar. Allar tilraunir til að fækka fuglinum hefðu eingöngu leitt til þess að hann færði sig til innan svæðisins. Til að ná árangri þyrfti að fella um 22.000 fugla á ári og kostnaður við það yrði ekki undir 12 milljónum króna. Meðal gesta við setningu fundarins voru alþingismennirnir Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, Þorgerður Gunnarsdóttir og Kristján Pálsson. Auk annarra gesta má nefna Vilhjálm Vilhjálmsson formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, Magnús H. Guðjónsson forstöðumann Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og Eirík Hermannsson skólamálastjóra. Morgunblaðið/Björn Blöndal Frá upphafi aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn er um helgina í Reykjanesbæ.