STJÓRNMÁLASKÝRENDUR töldu Pervez Musharraf, yfirmann herafla Pakistans, ólíklegan byltingarmann, þar sem hann hafði aldrei gefið sig að stjórnmálum. Hann hefur nú engu að síður tekið völdin í landinu, en ýmsir gera því skóna að hann vilji koma þeim í annarra hendur sem fyrst.

Musharraf virtur hermaður en

óreyndur stjórnmálamaður

Islamabad. Reuters.

STJÓRNMÁLASKÝRENDUR töldu Pervez Musharraf, yfirmann herafla Pakistans, ólíklegan byltingarmann, þar sem hann hafði aldrei gefið sig að stjórnmálum. Hann hefur nú engu að síður tekið völdin í landinu, en ýmsir gera því skóna að hann vilji koma þeim í annarra hendur sem fyrst.

Pervez Musharraf fæddist í Nýju Delhí á Indlandi árið 1943, en hann fluttist á unga aldri til Pakistans með fjölskyldu sinni og ólst upp í Karachi. Gekk hann til liðs við pakistanska herinn árið 1964 og þjónaði þar í stórskotaliðssveit, eftir þjálfun í virtum herskóla í Kakul. Hann barðist í sextán daga stríðinu við Indverja árið 1965, og hlaut í kjölfarið heiðursorðu hersins fyrir hugrekki í bardögum á Khem Kharan-svæðinu í Punjab-héraði.

Musharraf sótti námskeið í herskóla í Bretlandi og þjónaði í sérsveit landgönguliðsins er Pakistanar fóru á ný í stríð við Indverja árið 1971. Naut hann síðan vaxandi frama innan hersins. Hann var skipaður undirhershöfðingi í Mangla í Punjab, skammt frá indversku landamærunum, árið 1995, og gegndi þeirri stöðu þar til hann var skipaður yfirmaður pakistanska heraflans árið 1998. Áður hafði Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra, neytt forvera hans til að segja af sér eftir að hann hafði látið í ljós hugmyndir um veigameira hlutverk hersins í stjórn landsins.

Lítið er vitað um einkalíf Musharrafs, annað en að hann á tvö börn og að bróðir hans og sonur búa í Bandaríkjunum.

"Enginn bókstafstrúarmaður"

Stephen Cohen, sérfræðingur um heri Indverja og Pakistana hjá Brookings-stofnuninni í Washington, sagði við The New York Times að Musharraf virtist ópólitískari en fyrri yfirmenn hersins, sem tekið hefðu völdin í Pakistan. "Mig grunar að hann muni vilja komast frá völdum eins fljótt og unnt er," sagði Cohen. "Þetta er ekki hans sterkasta hlið. Samstarfsmenn hans líta á hann sem góðan og faglegan hermann. Hann er ekki talinn hafa mikla hæfileika til að gera herfræðilegar áætlanir, eins og flestir aðrir sérsveitarmenn. Sjóndeildarhringur hans er þröngur."

Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans og svarinn andstæðingur Nawaz Sharifs, lét vel af Musharraf í viðtali á sjónvarpsstöðinni CNN á dögunum. "Musharraf hafði yfirumsjón með aðgerðum hersins á valdatíma mínum," sagði hún. "Hann var enginn bókstafstrúarmaður. Hann var fagmannlegur hermaður og ég taldi hann mjög hugrakkan. Hann hafði verið í sérsveit landgönguliðsins, og manneskja sem hefur reynt það er fær um að taka mikla áhættu."

Reuters

Pervez Musharraf