LEIÐTOGAR Evrópusambandsins (ESB) ákváðu í gær að falla frá áformum um að skapa sameiginlegan sjóð til að standa straum af móttöku flóttamanna í aðildarríkjunum. Verður fremur leitast við að styðja ríki sem skyndilega þurfa að taka á móti miklum fjölda flóttamanna með framlögum af fjárlögum ESB. Þetta kom fram í máli Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, á fundi með fréttamönnum í gær.
Leiðtogafundur Evrópusambandins

Hætt við að skapa

sameiginlegan

flóttamannasjóð

Tampere. Reuters, AFP.

LEIÐTOGAR Evrópusambandsins (ESB) ákváðu í gær að falla frá áformum um að skapa sameiginlegan sjóð til að standa straum af móttöku flóttamanna í aðildarríkjunum. Verður fremur leitast við að styðja ríki sem skyndilega þurfa að taka á móti miklum fjölda flóttamanna með framlögum af fjárlögum ESB. Þetta kom fram í máli Paavo Lipponen, forsætisráðherra Finnlands, á fundi með fréttamönnum í gær.

Leiðtogar Evrópusambandsins funda nú í finnsku borginni Tampere (Tammerfors) í því skyni að freista þess að móta sameiginlega stefnu í dómsmálum og málefnum innflytjenda og flóttamanna og samræma aðgerðir í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Er markmiðið að ná hliðstæðum árangri á þessu sviði og tekizt hefur með innri markaði Evrópu. Þetta er í fyrsta sinn sem kallað er til sérstaks leiðtogafundar til að fjalla um þennan málaflokk.

"Markmiðið er skýrt, að viðhalda og auka frelsi þeirra [borgara ESB] með því að sjá til þess að hægt sé að njóta þess í öryggi og tryggu réttarumhverfi," sagði Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB, í ávarpi sínu til þjóðar- og ríkisstjórnaleiðtoga ESB-landanna 15 við upphaf fundarins í gær.

Aðildarríki ESB hafa skapað sameiginlegt efnahagssvæði innan sinna landamæra. Nú stefna þau að því að móta, fyrir árið 2004, sameiginlega stefnu í málefnum pólitískra flóttamanna, innflytjenda og í dómsmálum, í því skyni að geta betur varizt sókn ólöglegra innflytjenda inn í sambandið ­ án þess þó að rýra möguleika fólks, sem raunverulega þarf á hæli að halda, á að leita þess í Evrópu.

Samkomulag um nýjar aðildarviðræður

Í kvöldverðarboði í gærkvöldi gerðu leiðtogarnir með sér samkomulag til bráðabirgða um að bæta sex nýjum ríkjum í hóp þeirra ríkja sem nú eiga í viðræðum um aðild að ESB. Fyrr í vikunni mælti framkvæmdastjórn ESB með því að Lettlandi, Litháen, Slóvakíu, Rúmeníu, Búlgaríu og Möltu verði boðið til aðildarviðræðna. Talið líklegt fundurinn í Helsinki muni einnig gefa Tyrklandi aukna von um að verða viðurkennt sem tilvonandi aðildarríki.