SÝNINGIN "A Reason to Love", eða Ástæða til að elska, hefur verið sett upp í anddyri Gerðarsafns. Þar er á ferð þýskur ljósmyndari, Wilbert Weigend, en sýning hans er á vegum Goethe-Zentrum í Reykjavík. Sýningin samanstendur af stórum litskyggnum en í þeim fjallar listamaðurinn um það tímabil í lífi sínu þegar hann fór með kærustunni í sumarfrí og tók gamla kassamyndavél með í ferðina.
Ástfanginn Þjóðverji SÝNINGIN "A Reason to Love", eða Ástæða til að elska, hefur verið sett upp í anddyri Gerðarsafns. Þar er á ferð þýskur ljósmyndari, Wilbert Weigend, en sýning hans er á vegum Goethe-Zentrum í Reykjavík. Sýningin samanstendur af stórum litskyggnum en í þeim fjallar listamaðurinn um það tímabil í lífi sínu þegar hann fór með kærustunni í sumarfrí og tók gamla kassamyndavél með í ferðina. "Þetta eru ljósmyndir af mér og fyrrverandi kærustu minni. Um það leyti sem ég hóf síðustu önnina mína í ljósmyndanáminu varð ég ástfanginn og fór með kærustunni í ferðalag um sumarið og tók ljósmyndir af okkur saman. Ég hugsaði lítið um tæknileg atriði þegar ég tók myndirnar heldur smellti ég bara af. Ég notaði samt nokkrar tegundir af linsum og filmum og vann svo myndirnar áfram í framkölluninni," sagði Weigend. Það sem Weigend hrífst mest af í ljósmyndun, er að hans sögn, skilin á milli framtíðarinnar og þess andartaks þegar smellt er af. "Í ljósmyndun hugsarðu nefnilega alltaf fram í tímann, maður leitar að góðu sjónarhorni og þarf að hugsa hvernig myndin mun koma út, áður en smellt er af. Þetta er bilið á milli raunveruleika og framtíðar." Weigend vonast til að geta sýnt annað verk á sýningunni, en það er svarthvítt myndband af kærustunni í London. "Ástæða þess að við hættum saman á endanum er að hún fór til Lundúna í nám og við vorum mikið aðskilin. Myndbandið er eins konar framhald af ljósmyndunum og sýnir myndir af henni í Lundúnum," segir Weigend sem ásamt myndlistinni starfar við auglýsingaljósmyndum og eyðir drjúgum tíma í að mynda BMW- og Audi-bíla meðal annars. Þar gilda önnur lögmál en í myndlistinni, að hans sögn, vanda þarf vel til verks í sambandi við lýsingu og sviðsetningu öfugt við að fanga augnablikið með einum smelli sem enginn tekur eftir, eins og í frjálsri tjáningu myndlistarinnar. WILBERT Weigend.