Kristín Sturludóttir
Með þessum fáu orðum vil ég
minnast Kristínar. Fyrst kynntist ég Kristínu þegar ég kom til hennar á Kirkjuteiginn til að heimsækja hana Jóhönnu, bestu vinkonu mína, en við erum búnar að þekkjast síðan við vorum fimm ára hnátur eða í yfir 20 ár. Hún tók alltaf svo vel á móti mér með sínu hlýja viðmóti og hinu elskulega andrúmslofti sem ríkti á heimilinu. Ekki var ég fyrr komin inn úr dyrunum, en komnar voru heitar pönnukökur og mjólkurglas á eldhúsborðið og við stöllurnar sestar til að háma í okkur kræsingarnar, og þvílíkar pönnukökur, ég finn enn ilminn. Kristín sýndi einnig brennandi áhuga á því sem ég tók mér fyrir hendur og var alltaf ánægð fyrir mína hönd og alltaf jákvæð í minn garð. Ég vil þakka Kristínu fyrir allan þann hlýhug og vinsemd sem hún sýndi mér alla tíð og kveð hana með söknuði, og um leið vil ég votta aðstandendum hennar mína dýpstu samúð.
Katrín Ösp (Katý).