Jóhann Þorvaldsson Í dag er til moldar borinn í Siglufirði heiðursöldungurinn Jóhann Þorvaldsson, fyrrverandi skólastjóri.

Langri og merkilegri vegferð er lokið.

Jóhann var fæddur í Tungufelli í Svarfaðardal 16. maí 1909. Hann útskrifaðist kennari 1932, kenndi síðan í Súgandafirði og í Ólafsvík en kom til Siglufjarðar sem kennari 1938 og átti þar heima síðan.

Jóhann var góðum gáfum gæddur, mælskumaður ágætur og skörulegur í framgöngu. Það sem einkenndi hann þó framar öðru var einstök þrá til að bæta heiminn, leggja góðum málum lið og berjast fyrir þeim hugsjónum er hann taldi réttar. Fórnfýsi Jóhanns og ósérplægni var einstök og sér þess hvarvetna merki þar sem hann kom að málum.

Jóhann var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar og síðan skólastjóri 1973­1979. Hann var einnig skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar 1945­1973.

Síldin hvarf frá Siglufirði um 1960 og þá fóru erfiðir tímar í hönd í bæjarfélaginu og mikill fólksflótti. Loks kom svo að ákveðið var að leggja Iðnskólann niður. Það líkaði Jóhanni ekki vel og síðustu veturna hélt Jóhann Iðnskólanum á Siglufirði úti af eigin rammleik. Hann stýrði skólanum og kenndi án þess að fá eða eiga nokkra von í launum fyrir stjórn eða kennslu önnur en þau að verða æsku Siglufjarðar að liði og koma henni til þroska. Sama fórnfýsi einkenndi öll félagsstörf Jóhanns. Hann var bindindisfrömuður og var forstöðumaður Gesta- og sjómannaheimilis stúkunnar Framsóknar á Siglufirði 1941­ 1960. Þá gaf hann út og ritstýrði blaði templara "Reginn" um árabil. Jóhann starfaði mikið að málefnum templara og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands. Þá var hann æðstitemplar stúkunnar Framsóknar nr. 187 og gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrósar nr. 68.

Jóhann hafði brennandi áhuga á skógrækt. Ekki þótti líklegt að skógur þrifist í Siglufirði. Jóhann gafst ekki upp og ásamt með unglingum Siglufjarðar kom hann upp undra fallegu skógarsvæði neðst í Skarðsdal. Þar prýða barrtré og bera elju og þrótti Jóhanns vitni um ókomin ár. Jóhann var sæmdur fálkaorðu fyrir störf að kennslu og skógrækt og var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands.

Þá er að geta starfa Jóhanns að stjórnmálum en á þeim vettvangi kynntist ég honum best. Jóhann var framsóknarmaður af brennandi hugsjón. Hann bar fram hugsjónir flokksins af ógleymanlegri mælsku og þrótti og vísaði flokksbræðrum sínum á rétta slóð ef honum þótti sveigt af leið. Hann var ágætlega ritfær og stýrði Einherja, blaði framsóknarmanna í Siglufirði, allmörg ár. Sparaði hann hvorki tíma sinn né atorku við að halda blaðinu úti og gera þeð sem best úr garði.

Kona Jóhanns var Friðþóra Stefánsdóttir, myndar- og mannkostakona, systir kempunnar Skafta skipstjóra á Nöf. Lifir Friðþóra mann sinn og dvelur á Sjúkrahúsinu á Siglufirði.

Börn þeirra eru fimm. Sigríður sjúkraliði í Reykjavík, Þorvaldur framkvæmdastjóri SSA Seyðisfirði, Stefanía leikskólakennari í Reykjavík, Indriði bankamaður í Reykjavík og Freysteinn fréttastjóri á Morgunblaðinu.

Ég kveð Jóhann Þorvaldsson með miklu þakklæti fyrir margra áratuga trygga vináttu og óbrigðula leiðsögn. Fyrir hönd framsóknarmanna þakka ég honum mjög mikil og fórnfús forystustörf, það var öllum lærdómsríkt að kynnast honum.

Jóhann þráði að bæta heiminn og ég held að heimurinn hafi batnað fyrir tilverknað hans. Jóhann var stórheiðarlegur maður og til mikillar fyrirmyndar.

Blessuð sé minning hans.

Páll Pétursson.