Guðmundur Hákonarson
Í dag er til grafar borinn norður
á Húsavík Guðmundur Hákonarson, einn sannasti jafnaðarmaður og tryggasti Alþýðuflokksmaður, sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.
Leiðir Guðmundar og Alþýðuflokksins hafa lengi legið saman. Hann er einn af minnisstæðum mönnum frá fyrstu flokksþingum, sem ég sat á fyrstu árum sjöunda áratugat þessarar aldar. Þá var Guðmundur Hákonarson í blóma lífsins, áberandi maður hvort heldur sem var í ræðustóli eða í hópi félaga.
Hann var þá og lengi síðan í hópi helstu forystumanna Alþýðuflokksmanna á Norðurlandi, ekki aðeins í forystu sinna flokksmanna í sveitarstjórnarmálum á Húsavík heldur ekki síður í kjördæminu. Alþýðuflokkurinn á Húsavík átti góðu mannvali á að skipa auk þess sem þaðan voru ættaðir ýmsir af frammámönnum flokksins hér á suðvesturhorninu, bæði í hópi sveitarstjórnarmanna og alþingismanna.
Merkisberarnir í heimamannahópnum voru þeir Guðmundur Hákonarson, Sigurjón Jóhannesson og fleiri góðir menn, karlar og konur, og munaði um þá sveit.
Frá því leiðir okkar Guðmundar Hákonarsonar lágu fyrst saman hefur mikið vatn til sjávar runnið. Ungur og lítt reyndur liðsmaður í samtökum ungra jafnaðarmanna hefur elst að árum og reynslu og Elli kerling náði smátt og smátt undirtökunum í glímunni við Guðmund Hákonarson. Hún fékk ekki veikt andlegt atgervi Guðmundar en líkamskraftarnir dvínuðu og heilsu hrakaði. Leiðir okkar Guðmundar Hákonarsonar hafa legið saman á vettvangi Alþýðuflokksins allt frá því við sáumst fyrst, þannig höfum við átt samleið og getað fylgst með því hvernig framrás tímans hefur haft áhrif bæði á okkur sjálfa, samferðamennina, flokkinn, sem við höfum aðhyllst og stefnumálin, sem við höfum barist fyrir. Mörg ráð hefur Guðmundur Hákonarson gefið bæði mér og öðrum félögum okkar á þessari löngu leið og margt gott verkið hefur hann á þeim tíma unnið fyrir flokkinn sinn og sína heimabyggð. Fyrir það flyt ég honum þakkir okkar allra nú að leiðarlokum. Alþýðuflokkurinn Jafnaðarmannaflokkur Íslands þakkar einum af sínum nýtustu fylgismönnum og farsælustu forystumönnum langa samleið og fórnfúst starf.
Sjálfur flyt ég Guðmundi Hákonarsyni einlægar þakkir fyrir góð kynni og vináttu. Við hittumst síðast á fundi á Húsavík fyrir um það bil einum mánuði. Þar var til umræðu stofnun nýrra stjórnmálasamtaka, Samfylkingarinnar, sem né er unnið að. Enn sem fyrr var Guðmundur á þessum fundi áhugasamur, bjartsýnn og hvetjandi og lagði eins og jafnan áður allt jákvætt og gott til málanna. Á hann var vandlega hlustað og tekið mikið mark á því, sem hann sagði. Skerpan, áhuginn og framsýnin voru enn til staðar eins og ávallt áður þó líkamsheilsan væri farin að bila.
Nú kveð ég þennan gamla vin og samstarfsmann. Aðstandendum hans og vinum sendi ég einlægar samúðarkveðjur. Góður maður er genginn.
Sighvatur Björgvinsson.