Guðmundur Hákonarson Lokið er leik ­ bertan búin, strembin undir það síðasta en varist til hins ýtrasta þrátt fyrir veik spil á hendi.

"Það veldur ekki úrslitum hvort menn hafa á hendi léleg spil eða góð heldur hvernig spilað er úr þeim," sagði Guðmundur Hákonarson eitt sinn er rætt var um spil og spilamennsku.

Sjálfur gat hann þar trútt um talað eftir langa setu við spilaborð þar sem á ýmsu valt, slemmur sagðar, doblað og redoblað og sigur vannst á stundum en menn "fóru líka dán". Þá sögu þekkti Guðmundur Hákonarson af eigin raun og þekkist víðar en í spilum.

Þegar Guðmundur var á fyrsta ári missti hann móður sína, Ólöfu Kristjánsdóttur. Ólst því upp í Kvíabekk á Húsavík hjá móðurforeldrum sínum, hjónunum Kristjáni Jónssyni og Hólmfríði Friðfinnsdóttur, þar sem þröng voru húsakynni. Guðmundur naut mikils ástríkis hjá afa sínum og ömmu svo og móðursystkinum sínum Sigurfjólu og Friðfinni sem einnig áttu heimili í Kvíabekk. Faðir Guðmundar var oft langdvölum að heiman við sjósókn og störf annars staðar, eftirsóttur í skiprúm sökum dugnaðar og atorku.

Snemma tók Guðmundur til hendi sem önnur börn og unglingar á Húsavík. Var átta sumur í sveit á Langavatni í Aðaldal hjá þrem systkinum sem þar bjuggu. Margar sögur hafði hann að segja af vinum sínum Alla á Langavatni og dvöl sinni þar. Minnisstætt var honum og skellihló er hann sagði frá komu Jónasar frá Hriflu að Langavatni til að hitta vin sinn Alla, framsóknarmann og dyggan stuðningsmann Jónasar. Er Jónas kom auga á Guðmund gekk hann til hans, klappaði á koll honum og sagði: "Blessaður framsóknarkollurinn." Ekki virðist sú handaryfirlagning hafa breytt miklu um stefnu Guðmundar í þeim málum enda þá orðinn harður krati.

Þegar hann eltist fór hann á vertíð suður með sjó. Stundaði byggingavinnu á Húsavík nokkur sumur. Snemma var hann eftirsóttur til vinnu, kappsamur og duglegur, ósérhlífinn, glaðbeittur að hverju sem hann gekk, óvílsamur og hafði til að bera glaða lund og létta, ómetanlegt á hverjum vinnustað. Guðmundur tranaði sér ekki fram en var treyst, vinsæll og vinmargur, vildi vel gera og til hans var mjög leitað enda hjálpsamur og greiðvikinn.

Snemma gerðist hann áhugasamur um stjórnmál og skipaði sér í raðir Alþýðuflokksmanna og gegndi mörgum trúnaðarstörfum í þágu flokksins. Flutti tíðum lögeggjan á fundum. Erfði ekki brýnur við andstæðinga í stjórnmálum þótt stundum væri hart barist. Hann var manna ólíklegastur að þykkjast við eða fara í fýlu, yrði hann undir í leik. Slíkt var honum fjarri skapi. Samtakamáttur var honum ofarlega í hug, þegar hrinda þurfti fram málum, vissi af langri reynslu að öll sundrung er vatn á myllu andstæðingsins.

Þegar að kosningum dró færðist Guðmundur allajafna í aukana og ekki grunlaust um að hann hafi stundum haft nokkurt gaman af orrahríðum. Hann var um fjölda ára einn af máttarstólpum Alþýðuflokksins á Húsavík.

Guðmundur var eins og áður segir röskur til vinnu og gekk til verks án vafninga. Allmörg ár var hann framkvæmdastjóri Saumastofunnar Prýði á Húsavík. Þar gekk hann í flest störf ef á þurfti að halda þótt ekki fengist hann þó við saumaskap. Guðmundur Hákonarson var einn af snjöllustu bridsspilurum Húsvíkinga um langt árabil. Snemma hóf hann þann leik og iðkaði til hins síðasta. Hlaut marga sigra á þeim vettvangi. Þar sem annars staðar var hann kappsamur, drenglyndur og vel metinn, leiðbeindi oft ungum spilamönnum sem nutu leikni hans og reynslu. Félagar hans fyrr á árum minnast Guðmundar er hann sat við spilaborð með blik í augum og bros á vör, hvort sem hann hafði á hendi hund eða hátromp og sagði við félaga sína er hann litaðist um: "Komdu í gær" og vissi enginn hvort hann var að blása til sóknar eða varnar.

Síðustu ár var Guðmundur oft sárþjáður af sjúkdómi sem margan hefur leikið illa. Hann kvartaði ekki, mætti til funda, tók til máls, fylgdist grannt með hvað var að gerast í þjóðfélaginu, iðkaði brids og tók þátt í keppni. Um langt árabil hitti hann á hverjum laugardagsmorgni nokkra félaga sína úr ýmsum stjórnmálaflokkum á Hótel Húsavík þar sem málin voru rædd yfir kaffisopa.

Viku fyrir andlát sitt sat Guðmundur við spil með félögum sínum. Laugardaginn 9. okt. ók dóttir hans honum til Akureyrar þar sem hann vitjaði konu sinnar sem þar dvaldi á sjúkrahúsi eftir læknisaðgerð. Sunnudaginn 10. okt. kl. 11 að kveldi var Guðmundur fluttur á sjúkrahúsið á Húsavík. Þar dvaldi hann um nóttina á stofu með spilafélaga sínum til margra ára. Saman höfðu þeir unnið marga eftirminnilega sigra við spilaborðið. Þeir rifjuðu upp spil sín frá mánudeginum áður og sitthvað fleira frá fyrri spiladögum. Um klukkan sex um morguninn var Guðmundur fluttur til Akureyrar þar sem hann lést skömmu fyrir hádegi. Bertunni var lokið þar sem reynt hafði verið að spila úr eftir bestu getu.

Margur saknar nú góðs vinar og félaga.

Stefaníu Halldórsdóttur, Hákoni Óla, Dóru Fjólu og nánustu ættingjum Guðmundar Hákonarsonar er hér vottuð samúð.

Sigurjón Jóhannesson.