Guðmundur Hákonarson Það blöktu fánar í hálfa stöng á Húsavík mánudaginn 11. október sl. Það var Ágúst á skrifstofum verkalýðsfélaganna á Húsavík, sem bar mér þær sorgarfréttir að vinur okkar Gvendur Hákonar hefði verið að deyja. Mig setti hljóðan. Nú yrði ekki framar knúið dyra hjá mér og Guðmundur Hákonarson stæði kankvís í dyrunum, ákafur í að taka stutta og snarpa umræðu um pólitíkina. Þeirra stunda mun ég sakna.

Guðmundur Hákonarson var Húsvíkingur í húð og hár. Maramaður af þeirri stóru fjölskyldu jafnaðarmanna sem löngum hefur sett sterkan svip sinn á það samfélag sem lifað er hér við flóann, undir lágu fjalli og Kinnarfjöllin tignarmyndin fyrir handan.

Þó kynni okkar Guðmundar hafi náð hámarki á síðustu árum þá man ég hann vel sem athafnamann við síldarsöltun hjá Höfðaveri hf. og síðar sem framkvæmdastjóra saumastofunnar Prýði hf. Auk þessa gegndi hann mörgum trúnaðarstörfum fyrir samfélag sitt, sat m.a. í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn hér á Húsavík í 12 ár og var lengi stjórnarmaður í Fiskiðjusamlagi Húsavíkur.

Guðmundur var þannig virkur og skyldurækinn í uppbyggingu síns kæra heimabæjar og góður þegn. Hann var áhugamaður og kappsmaður hvort heldur var um brids, íþróttir eða pólitík og það var einmitt í pólitíkinni sem leiðir okkar lágu mest saman. Að undirbúningi þess að samfylkja jafnaðarmönnum hér á Húsavík unnum við Guðmundur saman. Í það starf lagði hann sig óskiptur þótt á þeim tíma glímdi hann við erfiðan sjúkdóm.

Uppskeran var sigur sem í mínum huga helgaðist af því hve Guðmundur og hans mörgu félagar gengu heilir til verks. Niðurstaðan á Húsavík vakti athygli á landsvísu. Næsta skref var baráttan fyrir Alþingiskosningar og enn var Guðmundur mættur til starfa og áhugasamur sem aldrei fyrr. Þar var hann stoð og stytta, gat í senn verið jákvæður og gagnrýninn, gaf ábendingar og tók undir góð ráð og lagði mikið af mörkum til baráttunnar af þeirri hógværð sem aðeins getur uppskorið virðingu.

Það var gott að kynnast manni eins og Guðmundi og eiga hann að félaga og vini. Í minningu hans höldum við ótrauð áfram að settu marki.

Um leið og Samfylkingarfólk þakkar honum óbilandi stuðning við að láta draum okkar rætast er fjölskyldu hans, Stefaníu, Hákoni og Dóru Fjólu, tengdabörnunum og barnabörnum og ástvinum öllum sendar samúðarkveðjur. Megi algóður Guð styrkja þau á sorgarstundu.

Örlygur Hnefill Jónsson.