Jóhann Þorvaldsson Jóhann Þorvaldsson var alla sína löngu starfsævi í forystusveit skógræktarfólks í sínu heimahéraði í Siglufirði og lét víða til sín taka í þeim málum. Hann var í hópi brautryðjenda á þeim tíma þegar íslensk skógrækt átti sér fáa formælendur og lét aldrei af óbilandi trú sinni á það afl sem í íslenskri gróðurmold er fólgið. Hans hugsjón var að hægt væri að breyta blásnum melum í fagra gróðurreiti ­ og það væri líka hægt í skóglausum og jafnvel gróðurvana sveitum þessa lands.

Hann var kennari af guðs náð ­ hvort sem hann talaði til ungra eða þeirra sem eldri voru ­ ræktun í víðasta skilningi var honum eðlislæg ­ líka þegar hún tengdist hinum huglægu þáttum.

Í huga okkar skógrætkarmanna er Jóhann Þorvaldsson hetja í baráttunni um að klæða landið þeim gróðri sem það á skilið ­ við minnumst hans frá samstarfinu innan skógræktarfélaganna þar sem hann lagði allt gott til ­ hvatti menn til dáða í ræðum og riti ­ og jafnvel í bundnu máli ef svo bar undir. Hann var eldhugi sem sannarlega var gott að eiga að.

Sá eldur var honum enn í huga þegar halla tók undan fæti á langri og farsælli ævi.

Við skógræktarfólk minnumst hans frá samstarfinu um áratuga skeið ­ munum eftir honum með tindrandi augu í ræðustól ­ með einlægum og heitum vilja til að vinna landi sínu og þjóð allt að gagni.

Nú við fráfall hans flyt ég fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands aðstandendum Jóhanns innilegar samúðarkveðjur. Hans mun lengi minnst á vettvangi íslenskrar skógræktar.

Hulda Valtýsdóttir, fyrrv. formaður Skógræktarfélags Íslands.