Jóhann Þorvaldsson Kominn heim í Siglufjörð,

sjá ungtré vaxa úr Skarðdalsjörð.

Þó líkamsþróttur leiti blunda

þá nýt ég þeirra endurfunda.

(Jóhann Þorvaldsson.) Hugur minn leitar til síðustu endurfunda minna við afa minn, Jóhann Þorvaldsson. Síðustu jól var ég í jólaleyfi á Íslandi með fjölskyldu minni. Líkamlegt þrek afa var þá lítið en andlega þrekið var ótrúlegt. Ég man hvað hann var glaður og stoltur þegar hann sýndi mér ljóðabókina sína sem hann ætlaði að gefa formlega út á afmælisdegi sínum hinn 16. maí er hann yrði níræður. Þegar fregnin um lát afa barst mér settist ég niður og las nokkur ljóð eftir hann úr ljóðabókinni hans "Lífsferðarljóð". Ég staldraði lengi við ljóðið "Kominn heim" en afi fór heim til Siglufjarðar og ömmu og var þar á sjúkrahúsinu sína síðustu ævidaga.

Minningar mínar frá uppvaxtarárum mínum tengjast Siglufirði á margan hátt. Ég og systur mínar vorum þar mikið á sumrin á Hverfisgötunni hjá ömmu og afa. Þær eru ófáar ferðirnar sem ég fór með afa í skógræktina. Mjólkin var sett í lækinn svo hún héldist köld og svo var hafist handa við að gróðursetja og hlúa að plöntunum. Afi hugsaði vel um trén sín og hlúði að þeim með ótrúlegri nærgætni og alúð. Þetta eru góðar minningar og það er gott að geta leitað í þær á kveðjustund.

Ég hef ætíð borið mikla virðingu fyrir afa. Hann var mikill maður sem ekki hræddist að fara ótroðnar slóðir eins og lífsverk hans sýna. Nú er komið að leiðarlokum. Ég kveð með hinstu kveðju afa minn Jóhann Þorvaldsson. Hafðu þökk fyrir allt.

Elísabet María Sigfúsdóttir.