Ármann Bjarnason Hér sit ég hljóð og hugsa til baka og rifja upp minningar um þig, elsku afi minn, þegar ég sem lítil stelpa kom hlaupandi niðrí Laufholt á sunnudagsmorgni og þú tókst í litlu hendurnar mínar og labbaðir með mér í gönguferð. Farið var framhjá Bjössabar og aldrei brást það, elsku afi minn, að þar var stoppað og þú keyptir bláan opal handa mér. Ó afi, þvílík hátíðarstund þegar þú settir opalstykkið í lófann minn. Þetta var okkar stund sem við áttum saman. Síðan tölti ég þér við hlið um bryggjurnar, en þá var það aðalrúnturinn að fara um bryggjurnar þar sem allt iðaði af mannlífi. Alltaf var svo gott að koma til ykkar í Laufholt og alltaf áttir þú eitthvert góðgæti til að stinga upp í lítinn munn. Margs er að minnast, elsku afi minn, ég man hvað ég var stolt þegar þið amma komuð að heimsækja okkur austur á Breiðdalsvík hér forðum. Þið voruð hjá okkur í vikutíma í yndislegu veðri. Það var margt brallað og hlegið. Ó, elsku afi minn, ég mun sakna þín en nú ertu kominn til ömmu og stelpunnar þinnar.

Elsku mamma, Hebbi og Maja, við vitum öll að afa líður vel núna. Við huggum okkur við það.

Megi Guð og englar vaka yfir þér og ég býð þér góða nótt, elsku afi minn.

Drottinn vakir, Drottinn vakir

daga og nætur yfir þér.

Blíðlynd eins og bezta móðir

ber hann þig í faðmi sér.

Allir þótt þér aðrir bregðist,

aldrei hann á burtu fer.

Drottinn elskar, ­ Drottinn vakir

daga og nætur yfir þér.



Löng þá sjúkdómsleiðin verður,

lífið hvergi vægir þér,

þrautir magnast, þrjóta kraftar,

þungt og sárt hvert sporið er,

honum treystu, hjálpin kemur,

hann af raunum sigur ber.

Drottinn elskar, ­ Drottinn læknar

daga og nætur yfir þér.



Þegar æviröðull rennur,

rökkvar fyrir sjónum þér,

hræðstu eigi, hel er fortjald,

hinum megin birtan er.

Höndin, sem þig hingað leiddi,

himins til þig aftur ber.

Drottinn elskar, ­ Drottinn vakir

daga og nætur yfir þér.

(Sig. Kristófer Pétursson.) Þín

Elín Hauksdóttir.