Björn Sigurðsson Þeim fækkar gömlu Skagstrendingunum sem settu svip sinn á bæinn þegar maður var að alast upp. Það er auðvitað eðlileg framvinda,en einhvern veginn verður ásýnd Skagastrandar ekki söm á eftir. Það koma ný andlit en hugsun manns leitar áfram til þeirra gömlu og söknuður situr í hjartanu.

Nú er einn merkur samborgari fallinn að velli, eftir mikið ævistarf og langa eljusögu. Björn Sigurðsson frá Mánaskál var fæddur 26. apríl l9l3 og varð hann skjótt sjálfbjarga með flest, ­ á þeim tímum var tvennt til í málum, að duga eða drepast. Björn einsetti sér snemma að duga og braust hann fram til góðra bjargálna þó ekki væri mulið undir hann í neinu. Móður sína missti hann níu ára gamall og má nærri geta að sá missir hefur verið sár. Hygg ég að þar hafi treginn varað alla tíð í sonarhjartanu. Björn fluttist ungur maður út í Höfðakaupstað, eins og Skagaströnd var oftast nefnd þá, því ekki voru föng á því fyrir hann að setjast að á Mánaskál. Þar stóð faðir hans lengi fyrir búi og síðar Torfi bróðir hans. Ef til vill hefur blundað í Birni löngun til að verða bóndi, ég veit það ekki, en ég er viss um það að þar hefði hann staðið vel í sinni stöðu, því maðurinn var þannig gerður að hann skilaði öllu frá sér með prýði. Á Skagaströnd kynntist Björn mikilli ágætiskonu, Elísabetu Frímannsdóttur, sem var heimasæta á Jaðri hjá foreldrum sínum Frímanni Finnssyni og Kristínu Pálsdóttur. Gengu þau í hjónaband og er óhætt að fullyrða að það skref hafi verið báðum til heilla. Björn var traustur maður og Elísabet að eðlisfari afar skyldurækin og trú í smáu og stóru. Þau hjónin byggðu sér hús handan hlaðs við æskuheimili Elísabetar og var það nefnt Jaðar.

Þar var heimili þeirra alla tíð, þar ólust upp börn þeirra, þrír synir og ein dóttir og eru þau öll búsett á Skagaströnd. Mikil vinna einkenndi líf þeirra Bjössa og Betu alla tíð, þau horfðu aldrei í það hvað mikinn tíma tók að sinna ýmsu kvabbi því bæði voru hjálpsöm og greiðvikin í besta máta.

Bjössi Máni, eins og hann var oftast nefndur, var annálaður verksnillingur og var sama að hverju hann gekk. Hann smíðaði jafnt úr járni og tré og allt verklag hans var með eindæmum traust og gott. Oft kom hann hlutum í lag þar sem aðrir höfðu gengið frá og gefist upp. En Bjössi gafst ekki upp, það var ekki hans háttur, heilastarfsemin fór á fullt og verkið var unnið þar, í höfðinu, áður en hendurnar tóku til starfa. Þeir sem unnið hafa með Bjössa Mána þekkja margar slíkar sögur og þær segja sitt um þennan mann sem var ekki hár í loftinu en þeim mun stærri að innviðum til. Margt sem Bjössi gerði á sínum búskaparárum var þess eðlis, að ég held að fáir eða engir hefðu farið þar í hans spor. Hugurinn var stór og vandamálin voru til þess að leysa þau - og þau voru leyst! Úrræðaleysi var nokkuð sem Bjössi þekkti ekki, hugkvæmnin var örugg og útsjónarsemin frábær, verkhyggnina mátti bóka sem arfgengan öndvegiskost. Menn vissu því til fulls að það var mikill mergur í Bjössa Mána og aldrei brást hann neinu því sem honum var trúað til. Það voru ekki til svik í þeim manni.

Þótt kali björk og brotni reyr

og björtum fækki vonum,

Bjössa Mána muna þeir

menn sem kynntust honum.

(Kristján Hjartarson) Mér þótti afar vænt um það að Bjössi bað mig að vera meðal líkmanna við útför Guðmundar Pálssonar frá Karlsminni 1976. Þá fann ég glöggt hvernig Bjössi leit á það að ég kom nokkuð oft til öldungsins sem átti skjól til fjölda ára hjá honum og Betu systurdóttur sinni. Bjössi var það ræktarsamur sjálfur að hann kunni manna best að meta ræktarsemi. Hann var sjálfum sér samkvæmur í því sem öðru, heilsteyptur og traustur til hinstu stundar. Slíkir menn sem hann eru hetjur hversdagslífsins, sannir í eðli og anda.

Undir það síðasta var Bjössi orðinn ellimæddur nokkuð og víst er að hann kveið ekki vistaskiptum. Hann vissi hvar hvílurúmið var og að fósturjörðin beið hans við gömlu sóknarkirkjuna hans á Höskuldsstöðum. Þar við hlið ástkærrar eiginkonu og í hljóðu samfélagi foreldra, systkina, sveitunga og vina, sá hann kvíðalaus fram á kyrrð og ró.

Hvíldin er þeim velkomin sem mikið hafa unnið og gamli maðurinn frá Jaðri hefur skilað sínu lífsverki með miklum sóma. Hann mun ekki gleymast þeim sem kynntust honum. Allir gamlir samstarfsmenn munu minnast hans með hlýju. Í hugum þeirra mun geymast dugnaður hans, fágæt ósérhlífni og inngróin hjálpsemi. Sannir Skagstrendingar munu því heiðra minningu Bjössa Mána meðan rækt er lögð við starfslegar dyggðir og mannkosti. Ég kveð Björn Sigurðsson frá Jaðri með einlægri virðingu og þökk fyrir góð kynni og votta börnum hans og öðrum ástvinum samúð mína vegna fráfalls hans.

Rúnar Kristjánsson.