Sigurbjörg Þorleifsdóttir Hún amma mín er dáin, haldreipið mitt mestanpart lífs míns. Hún tók mig að sér þegar ég var eins og hálfs árs og pabbi og mamma höfðu slitið samvistir, svo að segja má að hún hafi verið móðir mín, þó að ekki hafi hún fætt mig, þá ól hún mig upp og kom mér til manns eins og sagt er. Hún var óþreytandi að segja mér sögur úr bernsku sinni á Karlskála við Reyðarfjörð en hún ólst upp á Kömbum sem voru þar í túnfætinum. Oft þegar ég var lítil og átti að fara að sofa var ég ekki tilbúin til þess og sagði þá gjarnan: "Amma, viltu segja mér sögu af því, þegar þú varst lítil?" Það brást ekki, sagan kom, það var alltaf af nógu að taka. Það var greinilega mikið líf og fjör á bæjunum þeim, enda mannmargt mjög. Hún unni staðnum alla tíð og sagði svo vel frá að hann stóð manni lifandi fyrir hugskotssjónum,

Í upphafi voru systkinin sjö, hún eina stelpan og sex bræður, þar til tvíburabróðir hennar Sigurður drukknaði 19 ára gamall. Það var ekki eina áfallið sem henti þau systkinin í bernsku því að faðir þeirra drukknaði þegar amma var 12 ára.

Hún amma mín elskaði líka tónlist og spilaði á orgel sér og öðrum til gamans. Hún saumaði fyrir fólk og fljótlega kenndi hún mér handbragðið og um 10 ára aldur var ég farin að aðstoða hana við handsaum, að falda kjóla og þess háttar.

Hún var glaðlynd og hafði ríka kímnigáfu og hló dátt og innilega ef svo bar undir. Hún hafði ekki bara gaman af tónlist, ljóðlist stóð henni einnig hjarta nærri og hún setti saman ótal vísur. Eitt uppáhaldskvæðið hennar var þetta eftir Pál Ólafsson sem líka var Austfirðingur:

Tíminn mínar treinir ævistundir.

Líkt sem kemba er teygð við tein

treinir hún mér sérhvert mein,Skyldi hann eftir eiga mig að hespa og spóla

og rekja mína lífsins leið,

láta í höföld, draga í skeið?Skyldi hann eftir eiga mig að slíta, hnýta,

skammel troða, skeið að slá,

skjóta þráðum til og frá?Skyldi hann eftir eiga mig að þæfa,

síðan úr mér sauma fat,

síðast slíta á mig gat?Skyldi hann eftir eiga mig að bæta?

Það get ég ekki giskað á

en gamall held ég verði þá.

Hún amma kenndi mér mikið af vísum og ljóðum og stundum kváðumst við á á kvöldin ef ekki var annað við að vera eða einhverjir gestir í heimsókn.

Hjá ömmu var jafnan mjög gestkvæmt og það var hennar líf og yndi að taka á móti fólki, hún var mjög félagslynd og gestrisin. Það leið varla sá dagur að ekki kæmi einn eða fleiri í kaffisopa og pönnukökur, annaðhvort nágrannar eða lengra að komnir.

Stærsta áfall ömmu var, þegar hún fór að missa sjónina. 72 ára greindist hún með gláku og þegar hún var 80 ára sá hún vart mun dags og nætur. Þessi kona sem lifði fyrir að lesa, að sauma föt og aðrar hannyrðir var nánast niðurbrotin þegar hún gat ekki lengur sinnt þessum áhugamálum sínum og 1992 þegar maðurinn hennar hann Markús dó, lá leiðin á elliheimili vegna blindunnar. Fyrst á Ás í Hveragerði í nokkra mánuði, en svo á Sólvang í Hafnarfirði, en þangað vildi hún fara, því að bestu árum ævi sinnar hafði hún eytt í Hafnarfirði. Bræður hennar Páll og Magnús og Ída kona hans komu til hennar mjög reglulega og hún var mjög sæl með það. Ég heimsótti hana líka eins oft og ég gat, þar til ég fór að vinna erlendis fyrir rúmu ári, þá tóku dætur mínar við.

Ömmu sá ég síðast í maí sl. þegar ég var heima í stuttu fríi. Ég minnist hennar sem sterks persónuleika, mjög sjálfstæðrar konu sem ekki var upp á aðra komin. Hún var alla tíð mjög stolt af sínum nánustu.

Ég bið góðan guð að geyma þig, amma mín, og veit að nú ertu á betri stað og hittir þá sem þú elskaðir mest.

Elsku amma mín, minning þín er svo sterk, en þó svo blíð. Ég minnist þín og alls sem þú gafst mér um alla tíð.

Blessuð sé minning þín.

Sigrún Vilbergsdóttir.