SIGURÐUR KARLSSON

Sigurður Karlsson fæddist á Stokkseyri 6. desember 1954. Hann varð bráðkvaddur um borð í togaranum Gnúpi GK 11 hinn 10. október síðastliðinn. Foreldrar hans eru Sigríður Jónsdóttir, húsmóðir, og Karl E. Karlsson, fyrrverandi skipstjóri í Þorlákshöfn. Hann var fimmti í röð tíu barna þeirra. Systkini hans eru: 1) Ástríður, búsett í Stykkishólmi, maki Ingimundur Pálsson. 2) Guðfinnur, búsettur í Þorlákshöfn, maki Jóna Kristín Engilbertsdóttir. 3) Jón, búsettur í Þorlákshöfn. 4) Karl Sigmar, búsettur á Akranesi, maki Guðrún Sigríks Sigurðardóttir. 5) Erla, búsett í Þorlákshöfn, maki Þórður Eiríksson. 6) Kolbrún, búsett í Kópavogi. 7) Sigríður, búsett í Þorlákshöfn, maki Jóhann Magnússon. 8) Halldóra Ólöf, búsett í Þorlákshöfn, maki Svavar Gíslason. 9) Jóna Svava, búsett í Noregi, maki Sveinn Jónsson. Fjölskyldan fluttist til Þorlákshafnar þegar Sigurður var á fyrsta ári og bjó hann í Þorlákshöfn til ársins 1993 að hann fluttist til Njarðvíkur og hóf sambúð með eftirlifandi eiginkonu sinni, Láru Jónu Helgadóttur. Þau gengu í hjónaband 6. júní 1999. Sonur Láru er Andri Guðmundsson. Sigurður lauk farmannaprófi úr Stýrimannaskólanum 1983 og var sjómennskan hans aðalstarf eftir það. Útför Sigurðar fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.