Jóhann Þorvaldsson Það er erfitt að vera langt að heiman á stundu þegar ástvinur fellur frá. En þó sorgin sé mikil er margs að minnast og þakka.. Eins og 90 ára afmælisdagsins hans afa, sem var svo skemmtilegur og svo dýrmætt að eiga hann í minningunni. Þótt sjúkur væri, ljómaði afi af gleði og stolti. Hafði náð sínu takmarki sem var að gefa út ljóðabókina sína, lifa 90 ára afmælisdaginn, og gat stoltur horft til baka yfir ævistarf sitt.

Einhvern veginn finnst mér afi alltaf hafa náð þeim markmiðum sem hann ætlaði sér þó þau væru ekki alltaf hefðbundin og þessu náði hann líka. Það er ljúft að hugsa til baka, þegar lítil stelpa sat í kjöltu afa og hlustaði á "baula þú nú búkolla mín" og fleiri sögur ,því engin sagði eins vel sögur og afi. Eða þegar við sátum saman uppi, við skrifborðið og afi leiðbeindi mér með vinnubækurnar mínar veturinn sem ég var hjá afa og ömmu á Sigló. Eins alla sunnudagana þegar við fórum saman niður í stúku og svo sumrin þegar arkað var við hlið afa inn í skógrækt að hlúa að plöntunum sem honum þótti svo undur vænt um. Að virða og lifa í sátt við náttúruna, að "rækta" hvort sem það er skógurinn, eða trúin, og það að vera samkvæmur sjálfum sér eru meðal annars það dýrmæta veganesti sem afi skilur eftir, til okkar hinna.

Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku afi.

Friðþóra Ester Þorvaldsdóttir og fjölskylda, Danmörku.