Kristín Sturludóttir
Kær vinkona okkar hefur nú lotið í lægra haldi fyrir illvígum sjúkdómi. Kristín barðist hetjulegri baráttu við veikindi sín, en undanfarnir mánuðir voru henni oft erfiðir.
Hún tók því með þolinmæði, en af henni átti hún nóg. Vinátta okkar og hennar hófst á sjöunda áratugnum þegar hún giftist einum af okkar bestu vinum, Gunnari Svanberg. Aldrei bar skugga á vinskapinn. Margs er að minnast frá samverustundum okkar með þeim hjónum, en Kristín var einstaklega gestrisin og við höfum átt margar ánægjustundir saman og munum við sakna hennar sárt. Oft var komið við á Kirkjuteignum er komið var úr sundi, eins var oft glatt á hjalla í sumarhúsi þeirra í túnjaðrinum að Fljótshólum á æskustöðvum hennar. Minnisstæð er fjöruferð að Þjórsárósum í fögru veðri.
Kristín var glæsileg kona en að sama skapi hógvær og hæglát. Henni var margt til lista lagt og saumaði allt, bæði á sig og börnin. Það var sama hvað hún var beðin að sauma, hún leysti það allt af sérstakri snilld. En henni var fleira til lista lagt, hún hafði góða söngrödd og var í kirkjukór til margra ára, við sjáum hana nú fyrir okkur í englakórnum á himnum.
Blessuð sé minning hennar.
Elsku Gunnar, börn og barnabörn, þið eigið okkar innilegustu samúð.
Steinunn og Hilmar.