Rakel Árnadóttir Elsku Rakel frænka. Nú ertu farin upp til himna þar sem þér líður betur. Þegar pabbi minn, Snæbjörn, hringdi í mig og sagði að þú værir dáin, stoppaði hjartað í mér í smástund, en samt áttaði ég mig ekki á að þú værir dáin. Mér fannst guð ósanngjarn að taka þig burt svona unga. En ég á góðar minningar um þig sem ég aldrei gleymi.

Alltaf þegar pabbi minn, Snæbjörn, kom í bæinn frá Ísafirði komum við alltaf til þín í flotta stóra húsið þitt og Braga í Fagrahvamminum í Hafnarfirði. Síðan þegar við kvöddum sagðir þú alltaf við mig að ég þyrfti að koma aftur til þín, því ég ætti nú heima í Hafnarfirði. Ég sagði að ég myndi koma fljótt aftur, en kom aldrei nema með pabba þegar hann var fyrir sunnan. Þegar ég gekk framhjá húsinu þínu og Braga hugsaði ég til þín og hvort ég ætti að koma til þín í heimsókn, en gerði það aldrei því ég var svolítið feimin.

Seinustu árin höfum við pabbi ekki heimsótt þig, af tímaleysi, sem ég sé eftir í dag og ég hugsa bara að ef ég hefði farið oftar í heimsókn til þín þá liði mér betur.

Á ættarmótinu sem var fyrir þremur árum varstu svo fjörug og skemmtileg. Ég man ennþá eftir hve góð þú varst alltaf og mun aldrei gleyma því.

Elsku Rakel frænka, ég bið að heilsa Bjössa afa og bið guð að geyma ykkur. Elsku Bragi, Guðmundur, Sigga, Doddi og Daði, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Guð veri með ykkur í þessari miklu sorg.

Dagný Sif Snæbjarnardóttir.