Guðmundur Hákonarson Föstudaginn 8. okt. s.l. átti ég langt samtal í síma við Guðmund Hákonarson. Áhugi hans á velferð Húsavíkur var einlægur sem ætíð áður. Hann undraðist að 80 einstaklingar voru á brott á s.l. átta mánuðum. Nú er hann sjálfur farinn í þá ferð, er bíður okkar allra. Guðmundur hafði barist hetjulega við illvígan sjúkdóm í mörg ár. Stundum virtist, sem endalokin væru skammt undan, en mikill vilji og gott skap, sem einkenndi hann ætíð, máttu sín mikils í allri baráttunni. Síðustu orð mín við hann voru hvort hann gæti gengið utandyra. "Ég er með ónota stingi, við sjáum bara til," og svo kveðjuorð. Endalokin voru við næsta leiti.

Guðmundur kom úr umhverfi, þar sem vinna og aftur vinna var stunduð hvenær er færi gafst. Störfin voru tengd sjósókn, landbúnaði eða almennri verkamannavinnu. Hann missti móður sína á fyrsta ári. Faðir hans var sjómaður. Hann sótti sjó suður eins og títt var á þeim árum. Síld á sumrum og við réttir og sláturverk á haustin. Guðmundur elst upp hjá afa og ömmu í móðurætt fram um fermingu. Þá tekur Fjóla móðursystir hans við heimili fyrir Hákon mág sinn og Guðmund, í húsinu Seli á Húsavík. Guðmundur ólst upp við mikil og góð kynni af sjómennsku og landbúnaði. Hann var fjöldamörg ár í sveit á Langavatni í Reykjahverfi og hafði þar gott atlæti. Síðar á sjó. Á unglingsárum hans var frjálst að leika sér á túnum beggja afanna og sinna skepnum eftir atvikum vor og haust. Frelsi fyrir unglingana til leikja var algert, á túni eða í fjörunni. Heyskapur var yndi unglinga á Húsavík á uppvaxtarárum hans. Einnig að stokka og beita línu.

Ekki þurftu menn að sitja lengi að umræðum með Guðmundi til þess að komast að því að málefni Alþýðuflokksins voru honum mjög hugleikin. Segja má að hann hafi gersamlega helgað sig hugsjónum jafnaðarstefnunnar alla sína tíð og barist fyrir henni hvar sem við varð komið. Þessa hugsjón fékk hann þegar sem unglingur og vék ekki frá henni. Sameiningin nú milli gamalla hugsjónaflokka var honum mjög hugleikin og vildi hann veg hennar sem mestan. Það gladdi hann mjög að vel tókst til við síðustu kosningar á Húsavík. Guðmundur var í eðli sínu félagslyndur og naut sín vel við spil og spjall.

Í mjög langan tíma spilaði hann brids og var vel liðtækur á því sviði. Áhugi hans á hagsmunum og atvinnu fólksins var ekki eingöngu bundinn við Húsavík. Hann var eldheitur baráttumaður fyrir því, að almenningur gæti lifað við góð kjör hér á landi og réttmætur jöfnuður ríkti. Hann hafði mikinn beyg af þeirri þróun síðustu ára sem kvótakerfið var að leiða yfir þjóðina. Hann kallaði flóttann utan af landi þjóðflutninga og varhugaverðan. Sanngjarn jöfnuður í lífskjörum yrði að ríkja í landinu og möguleikar til þess að njóta sín.

Það er svo að jafnaði, að hugsjónamenn þurfa á stuðningi að halda heimavið sem út á við. Guðmundur naut þess í ríkum mæli frá konu sinni Stefaníu Halldórsdóttur, og síðar syni og dóttur. Heimilisfriður er rofinn með símtölum í tíma og ótíma.

Þessu öllu var mætt með stillingu og velvild á heimili þeirra í tugi ára. Liðsinni var þeim eðlislægt.

Minningin um heilsteyptan drengskaparmann mun lifa meðal þeirra, sem þekktu til Guðmundar. Ég sendi fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Ármann Héðinsson.