EDDA ÞÓRZ OG MAGNÚS Ó. VALDIMARSSON Það er margs að minnast þegar þau eru kvödd Edda og Mói en það var Magnús kallaður af flestum sem til hans þekktu. Við hjónin þekktum þau vel allt frá því að þau fluttu á Nesið og áttum með þeim margar ógleymanlegar stundir, sérstaklega á Mallorca en þar voru þau á heimavelli og þekktu þar alla staði sem vert var að heimsækja. Mói átti forláta rauða derhúfu sem hann notaði bara á ströndinni og Magalufströndin var uppáhalds göngubraut þeirra hjóna. Mói var mjög listhneigður og var sannkallaður "lífskúnstner" eins og þeir gerast bestir og óborganlegar eru margar portrait-myndir hans af samtíðarmönnum. Magnús var einn af stofnendum Myndlistaklúbbs Seltjarnarness, glaðværs hóps myndlistamanna sem hittist í "Való" hvern laugardag í áraraðir og máluðu þar ýmist undir leiðsögn kennara eða frjálst. Hópurinn hélt sýningar sem vöktu athygli bæjarbúa og annarra sem til sáu en umfram allt voru þessir tímar mikil lífsfylling fyrir þátttakendur. Undanfarin ár hafði Mói vinnustofu á leigu í Bónus-húsinu og stundaði list sína af krafti og er hans sárt saknað úr hópnum sem þar hefur aðsetur. Mói var mjög félagslyndur maður og var virkur í félögum hér á Seltjarnarnesi m.a. Sjálfstæðisfélagi Seltirninga þar sem hann sat í stjórn um skeið og Rotary þar sem hann starfaði síðari árin.

Edda og Mói voru mjög áhugasöm um íþróttir og stunduðu bæði sund af kappi, ennfremur voru þau áhugafólk um boltaíþróttir og mættu oft á kappleiki. Magnús hafði mikinn áhuga á bæjarmálum og kom oft til mín til að ræða um það sem efst var á baugi hverju sinni, bæði í bæjarmálum og landsmálum. Eddu og Móa er sárt saknað hér á Nesinu og við kveðjum góða vini með eftirsjá. Við sendum Katrínu og Birni og dætrum þeirra kveðjur okkar.

Sigríður Gyða og Sigurgeir Sigurðsson.