Sigurður Karlsson Kæri bróðir. Á stundu sem þessari flýgur margt gegnum hugann. Þú varst yngstur af okkur bræðrunum en númer fimm í systkinahópnum. Í dag þegar ég rifja upp uppeldi okkar í þessum stóra systkinahópi hugsa ég um okkur fjóra sem mótvægi við okkar frábæru sex systur. Þú varst þremur árum yngri en ég þannig að ég píndi þig, Nonni mig, og Finni réð öllu, en öll komumst við á legg og til hinna ýmsu starfa. Þitt hlutverk var í mörgu erfitt. Þú veiktist í mjöðm kornungur, sem hafði mikil áhrif á allt þitt líf. Það muna allir jafnaldrar þínir þegar þú komst út af B-götu 6, þar sem við bjuggum í Þorlákshöfn, labbaðir niður götu og þegar komið var neðar í götuna þá var spelkan tekin og hent inn í næsta garð og farið í fótbolta eða eitthvað annað með krökkunum, sem þýddi að þú þurftir að þola miklar kvalir á uppvaxtarárunum.

Siggi var góður námsmaður, tók góð próf úr stýrimannaskólanum, kláraði þrjá bekki eða farmanninn, síðan tók hann tvo vetur í Tækniskólanum. Siggi fór á sjóinn eins og aðrir úr okkar ætt, pabbi var skipstjóri og útgerðarmaður þannig að á sjóinn fórum við eftir því sem við eltumst, fyrst Finni, svo ég, síðan Siggi, en vegna þess að við eldri bræðurnir vorum orðnir æðstráðandi á bát föður okkar fór Siggi annað. Hann var á nokkrum bátum eins og gerist með sjómenn, nú síðast á frystitogarunum Gnúp frá Grindavík og líkaði mjög vel.

Árið 1993 hitti Siggi eftirlifandi eiginkonu sína, Láru Helgadóttur, og tóku þau sér búsetu í Ytri-Njarðvík. Árin með Láru og syni hennar voru Sigga mjög góð. Andri sonur Láru og Siggi urðu fljótt góðir vinir og mátar. Hinn 6. júní sl., á sjómannadag, giftu þau sig.

Núna þegar við hugsum til baka til ungs manns sem deyr í blóma lífsins spyr maður þeirra spurninga sem ekki er hægt að svara. Máltækið segir að þeir deyi ungir sem guðirnir elska. Kannski er það svarið við einni spurningunni.

Siggi bróðir var fæddur 7. desember 1954 og hefði orðið 45 ára, sem er ekki hár aldur. Við hjónin fluttumst til Reyðarfjarðar 1996 þannig að samband okkar varð minna nema gegnum síma. Siggi hringdi alltaf. Hann hringdi til að bjóða okkur hjónunum í giftinguna sína. Þá fannst mér ég hafa svo mikið að gera að ég fór ekki. Hann þarfnaðist þess að við tækjum öll þátt í þessari gleðistund með honum og Láru. Þetta hugsar maður núna og breytir engu því það er of seint, en við sem eftir lifum eigum möguleika á að hittast oftar og gleðja hvert annað.

Ég veit, kæri bróðir, að þér líður vel þar sem þú ert nú. Það fundum við öll sem litum þig augum í litlu kapellunni í Fossvoginum.

Við, systkini og makar Sigga, vottum Láru og Andra dýpstu samúð okkar. Við vonum að guð styrki ykkur og mömmu og pabba, sem misstuð mest.

Minningin um góðan dreng lifir með okkur öllum, dreng sem var hrjúfur á yfirborðinu en blíður fyrir innan grímuna. Guð geymi hann og blessi.

Þinn bróðir

Karl Sigmar (Simmi).