Sigurður Karlsson Hann Siggi mágur minn er dáinn, horfinn. Hann er búinn að fara sína síðustu sjóferð. Hann gat ekki lokið túrnum. Hann varð bráðkvaddur úti á sjó, aðeins 44 ára gamall. Hann og Lára voru búin að vera fjóra mánuði í hjónabandi. Hann átti allt lífið framundan. Með sorginni vakna svo ótalmargar tilfinningar og spurningar sem erfitt verður að fá svör við.

Það var fyrir 35 árum sem ég sá Sigga Kalla fyrst. Hann var þá á tíunda ári, snaggaralegur strákur sem skar sig úr öllum krakkaskaranum á B-götunni, af því hann var með annan fótinn í spelku vegna brjóskseyðingar í mjöðminni. Ég tók svo vel eftir þessu, nýflutt með fjölskyldunni í Þorlákshöfn, því Gréta systir, jafngömul Sigga, var líka í svona spelku. Munurinn á þeim var bara sá að Gréta var alltaf í sinni spelku en Siggi bara stundum í sinni. Siggi lét ekki veikindi sín aftra sér frá því að taka þátt í leik og starfi barnanna í Þorlákshöfn, ef spelkan tafði hann frá því sem þurfti að gera fór hann bara úr henni og henti henni inn á lóð og hljóp af stað, haltrandi, en það hratt að hróp og köll mömmu réðu engu.

Siggi fluttist til Þorlákshafnar nokkurra mánaða gamall. Í Þorlákshöfn voru þá aðeins örfá hús en mörg í byggingu. Meitillinn hafði þá tekið til starfa og flykktist til Þorlákshafnar ungt fólk sem sá bjarta framtíð þar við gjöful fiskimið. Kalli Karls og Sigga voru ein af þessum ungu hjónum sem fluttust frá Stokkseyri til Þorlákshafnar, Kalli til að verða skipstjóri hjá Meitlinum.

Siggi var þá yngstur barnanna, sá fimmti í röðinni. Í mörg horn var að líta hjá Siggu með barnahópinn sinn, þau Ástu, Finna, Nonna, Simma og Sigga. En hann Siggi fékk ekki að vera yngstur lengi því á eftir honum komu Erla, Dóra, Sigga og Jóna Svava. Oft er talað um það að erfitt sé að vera miðjubarn af þremur systkinum. Það hlýtur líka að vera erfitt að vera miðjubarn af tíu systkinum eins og Siggi var. Hann þurfti að feta í fótspor eldri systkinanna og ekki mátti hann falla í skuggann af yngri systrunum fjórum.

Lífsbaráttan hófst. Allt snerist um fisk, fiskveiðar og útgerð. Siggi fylgdist vel með öllu. Lærði á alla þessa hluti. Þannig var lífið í Þorlákshöfn. Það var svo spennandi að fylgjast með aflabrögðum og hvernig gekk. Auðvitað fór það svo að Siggi fór í Sjómannaskólann og hans vinna var á sjónum. Hann átti mjög gott með að læra og fór í tölvu- og skrifstofunám og seinna í Tækniskólann. En hugurinn stefndi alltaf á sjóinn.

Siggi bjó lengst af í foreldrahúsum. Þar er oft margt um manninn eins og gefur að skilja í barnmargri fjölskyldu. Við stóra eldhúsborðið á Heinaberginu hafa mörg málin verið rædd og brotin til mergjar. Siggi lá þá ekki á liði sínu með skoðanir á málefnum. Hann var ekki alltaf sama sinnis og allir hinir en stóð fastur á sínu. Það er ótrúlega sárt að hugsa til þess að Siggi muni ekki oftar sitja við borðið og taka þatt í umræðunum.

Siggi var kominn hátt á fertugsaldurinn þegar hann kynntist henni Láru sinni. Þau hófu búskap í Njarðvíkum og gekk Siggi syni Láru í föðurstað. Þau giftu sig á sjómannadaginn s.l. Við Simmi komumst ekki í brúðkaupið og finnst okkur það núna svo sárt. Af hverju höguðum við ekki tíma okkar þannig að við gætum heiðrað Sigga á hans hamingjudegi? Við áttum eftir að segja Sigga hvað okkur þótti mikið vænt um hann. Við héldum að við hefðum nógan tíma. En lífið er óútreiknanlegt. Hvern hefði órað fyrir því að Siggi færi svona fljótt frá okkur? Hann átti eftir að gera svo margt.

Eftir sitjum við og reynum að skilja af hverju lífið er eins og það er en svörin finnum við ekki. Nú er það aðeins minningin um Sigga sem við eigum.

Elsku Sigga og Kalli, Lára og Andri, megi guð veita ykkur huggun í þessari miklu sorg.

Minningin lifir um góðan dreng.

Þín mágkona,

Guðrún.