Hermann Pálsson Látinn er í Vestmannaeyjum ástkær tengdafaðir minn, Hermann Pálsson. Aðeins er um mánuður síðan tengdaforeldrar mínir komu til Reykjavíkur til að vera viðstödd útför bróður míns. Engan grunaði þá hvað í vændum var og hversu skjótt veður skipuðust í lofti.

Hermann fæddist í Sjávarborg í Vestmannaeyjum 23. janúar 1926, sonur hjónanna Ingveldar Pálsdóttur frá Kerlingardal í Mýrdal og Páls Gunnlaugssonar frá Uppsalakoti í Svarfaðardal. Ungu hjónin fengu ekki lengi að vera samvistum því Páll fórst með vélbátnum Ara frá Vestmannaeyjum árið 1930, þegar Hermann var aðeins fjögurra ára gamall og systir hans Símonía rúmu ári eldri. Tekið var til þess ráðs að senda drenginn í vist í Kerlingardal til móðurbróður síns, Andrésar Pálssonar, og Ástu konu hans og var hann þar til 10 ára aldurs er hann var sendur í skóla í Eyjum. Hann fór þó austur í Mýrdal á hverju vori til 16 ára aldurs. Sæmdarhjónin í Kerlingardal gengu Hermanni nánast í foreldrastað og hélt hann góðu sambandi við þau og fjölskyldu þeirra alla tíð síðan.

Hermann fór á vertíð í fyrsta sinn aðeins sautján ára gamall á Gulltoppi VE. Hann var síðan á gamla Ísleifi og Ísleifi öðrum. Hann var í 10 ár á Erlingi II og III, en var lengst af með Boga í Laufási á Stíganda VE. Hann lauk stýrimannsprófi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1959.

Hermann kvæntist tengdamóður minni, Margréti Ólafsdóttur, í Vestmannaeyjum 24. desember 1960, en Margrét er dóttir hjónanna Ólafs Sigurðssonar frá Butru í Fljótshlíð og Ingibjargar Tómasdóttur frá Barkarstöðum í sömu sveit. Börn Hermanns og Margrétar eru Ólafur, tæknifræðingur hjá VSÓ-Ráðgjöf, Ingveldur, fulltrúi í Sparisjóði vélstjóra, og Guðbjörg, hárgreiðslumeistari í Gautaborg.

Tengdaforeldrar mínir voru sérlega samhent og bjuggu börnum sínum öruggt og gott heimili að Vallargötu 16. Þau tóku inn á heimili sitt Ingveldi móður Hermanns síðustu árin sem hún lifði og síðar Ingibjörgu móður Margrétar meðan hún hafði fótavist.

Hermann hætti sjómennsku 1974 og keyrði vörubíl hjá Ísfélaginu næstu 22 árin. Hann lét af störfum rúmlega sjötugur og það er huggun harmi gegn að hann fékk tækifæri til að sinna áhugamálum sínum síðustu árin þó að sá tími hafi því miður orðið allt of skammur. Tengdafaðir minn bar þess merki að hafa unnið lengi til sjós. Hann var kvikur í hreyfingum, vaknaði fyrir allar aldir á morgnana og fylgdist grannt með veðurfregnum. Hann bjó einnig yfir þeim eiginleika að geta fengið sér kríu að sjómannasið. Vinnutíminn var langur hjá honum alla tíð, einnig eftir að hann fór að vinna í landi. Oft var mæting á bryggju snemma að morgni og komið heim seint um kvöld. Ekki leika margir það eftir að vinna svo langan vinnudag árum saman, komnir yfir miðjan aldur. Og ekki voru margir veikindadagarnir á starfsævinni. Hermann var hagleiksmaður, hann hélt húsinu á Vallargötunni vel við og var vel liðtækur við smíðar og bílaviðgerðir.

Þegar ég hitti tengdaforeldra mína í fyrsta sinn var ég taugaóstyrk eins og gengur við slík tækifæri. Ég komst þó fljótlega að því að þar fóru einstök öndvegishjón sem tóku mér opnum örmum. Góð vinátta tókst með þeim og foreldrum mínum og var haldin hátíð á Háaleitisbrautinni þegar Vallargötuhjónin komu til Reykjavíkur. Þau festu kaup á íbúð í Hraunbænum fyrir nokkrum árum og komu oftar upp á land í seinni tíð til að hitta börn, barnabörn og aðra ættingja.

Hermann hafði marga þá mannkosti sem sjaldgæfastir og verðmætastir eru. Hann var sannarlega vandaður maður, góðhjartaður, trygglyndur, skapgóður og hógvær. Hann hallmælti engum og reyndi ávallt að finna jákvæða hlið á vandamálum. Hann sýndi vel sálarstyrk sinn og æðruleysi þegar honum var tjáð fyrir nokkrum dögum að hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi.

Það er erfitt að finna huggunarorð á stundum sem þessum, þegar ástvinur er skyndilega kallaður á braut. Þegar frá líða stundir er þó hægt að hugga sig við að Hermann var sáttur við lífið og taldi sig mikinn gæfumann.

Ég kveð tengdaföður minn með miklum söknuði og þakka honum samfylgdina.

María J. Ammendrup.