Guðmundur Hákonarson
Í dag kveðjum við kæran vin,
Guðmund Hákonarson, sem er látinn eftir að hafa barist við illvígan sjúkdóm í áratug með þreki og æðruleysi sem fáum er gefið. Hann stóð meðan stætt var. Hetjan er fallin.
Það er skarð fyrir skildi og mikill missir þeim sem næstir honum stóðu. Það besta sem maður eignast í lífinu, næst góðri fjölskyldu, eru góðir vinir. Betri vin en Guðmund Hákonarson var vart hægt að kjósa sér. Hann hafði sterkan persónuleika, var mannblendinn, félagslyndur og hlýr. Mannúð var honum í blóð borin, hann var ekki kröfugerðarmaður fyrir sjálfan sig.
Guðmundur var mikill Húsvíkingur, unni sinni heimabyggð og lét málefni bæjarins til sín taka með ýmsum hætti. Hann sat lengi í bæjarstjórn Húsavíkur fyrir Alþýðuflokkinn, en hann gerði stefnu þess stjórnmálaflokks að sinni strax á unga aldri og hvikaði aldrei frá henni, þótt stundum gæfi á bátinn.
Hann var höfðingi í látleysi sínu, hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, aldrei að þykjast, hann var öðlingur.
Á kveðjustund leita minningar á hugann, minningar um góðu samverustundirnar sem við áttum með þeim Stefu. Heimsóknirnar á víxl, samvinna á pólitískum vettvangi, ferðalög innan lands og utan, en ekki síst skemmtilegar stundir við spilaborðið þar sem á ýmsu gekk. Guðmundur var snilldar bridgespilari og mátti þar margt af honum læra. Við sjáum hann fyrir okkur þegar úr vöndu var að ráða, halla sér fram á borðið, gefa sér góðan tíma til að ráða í svip andstæðinganna og taka svo nákvæmlega rétta spilið og henda því á borðið. Hann hló að þeim sem kenndu vondum spilum um slaka útkomu og sagði að það þyrfti nú líka að spila úr lélegu spilunum, og spurði hvort það væri ekki þannig í lífinu sjálfu.
Hann var þeirrar skoðunar að það þyrfti að bregðast við kringumstæðum eins og þær lægju fyrir hverju sinni. Hann var vafsturslaus maður sem vildi leysa hvert mál á sem einfaldastan hátt en ekki flækja það. Það kom vel fram á ferðalögum hvað sýnt honum var um að líta á spaugilegu hliðarnar en framhjá ýmsum uppákomum.
Guðmundur var gæfumaður í einkalífi. Hann átti góða konu og vel gerð börn. Hann var mikill fjölskyldumaður og félagi barna sinna og barnabarna. Hann var vinsæll maður og hans verður saknað af mörgum, við erum þeirra á meðal.
Við kveðjum Guðmund Hákonarson með þökk og virðingu. Stefu, Hákoni Óla, Dóru Fjólu og þeirra fjölskyldum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Megi minningin um góðan mann og vammlausan veita þeim styrk á sorgarstundu.
Ásta og Arnljótur.